146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er auðvitað ekki að ósekju að við þingmenn stjórnarandstöðunnar komum hér og vekjum athygli á því að þingmenn tveggja stjórnarflokkanna tóku ekki til máls. Þetta voru engin léttvæg mál sem hér var verið að ræða í gær. Það er alveg ljóst. Það verður líka, ef þingmenn telja sig ekki vita betur, að ræða það hér. Ég fékk afsökunarbeiðni frá hæstv. fjármálaráðherra í gegnum fésbók og í gegnum fjölmiðla. Orðin féllu hér. Það ber að biðjast afsökunar hér. Það er hinn eðlilegi framgangsmáti. Sama á við um annað eins og hv. þm. Logi Einarsson benti á áðan. Hér á fólk að biðjast afsökunar, brjóti það af sér eða telji sig hafa afsökunarbeiðni fram að færa. Þetta er málstofa okkar. Ég hvet nýja hv. þingmenn til þess að kynna sér málið betur og nýta sér reynslu eldri þingmanna, telji sig þeir ekki vita hvernig þeir eigi að bera sig að. Og ég hvet að sjálfsögðu líka hv. þingmenn Viðreisnar, þingflokksformann, og Bjartrar framtíðar (Forseti hringir.) til að segja okkur hér hvers vegna þau tóku þá ákvörðun í gær að taka ekki þátt í þessu samtali með þinginu.