146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Vegna orða Brynjars Níelssonar langar mig að koma með það sjónarhorn inn í umræðuna að auðvitað skilur maður að ráðherrum geti verið vandi á höndum um að vita alltaf allt. Það er kannski erfitt að þurfa að vera í þeirri stöðu. Ég hef samúð með því. Þarna var hins vegar um að ræða stórt mál sem skiptir máli. Það er jú dómsmálaráðherra sem sér um til dæmis vegabréfamálin á Íslandi. Auðvitað skiptir máli í hinni stóru umræðu sem verið hefur á Íslandi síðustu vikur, vegna þess að það hefur komið upp, hvernig Ísland eigi að taka á málum sem millilendingarstöð milli Evrópu og Bandaríkjanna. Þá skiptir mjög miklu máli að við vitum hver ábyrgð íslenskra stjórnvalda er, hvað íslensk fyrirtæki (Forseti hringir.) þurfa að gera vegna einhverra tilskipana sem koma frá Bandaríkjunum. Mér finnst þess vegna eðlilegt að gera þá kröfu til hæstv. ráðherra að setja sig inn í málið. Viti hún ekki svar við spurningunni hér þá ætti hún alla vega að boða að hún ætli að grennslast fyrir um málið og beri það svo inn í þennan sal og svari.