146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:29]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvort hv. þm. Birgir Ármannsson eða einhver hér inni heldur að það hafi verið tilviljun eða einhver tossaskapur við fundarsköp að þessir tveir flokkar tjáðu sig ekki um þessi tilteknu mál í gær. Jú, Björt framtíð var á móti leiðréttingunni. Og þegar forsætisráðherrann, sem situr í þeirra skjóli og bar ábyrgð á leiðréttingunni, er til svara um þau þá tjá þau sig ekkert um það nema á Facebook með blekkingum, eins og fram hefur komið. Hvar er ábyrgð þeirra sem tala um fúsk og aukið lýðræði og pólitíska ábyrgð þegar forsætisráðherra þeirra kemur upp í pontu og neitar að svara því hvort hann hafi brotið siðareglur? Hann segir: Ja, ef þið haldið að ég hafi brotið siðareglur getið þið bara komið með vantraust. Kannski gerum við það.

Ef einhver getur setið af sér vantraust, þýðir það að hann hafi gert allt rétt? Er það skoðun Bjartrar framtíðar? Að svo lengi sem einhver sitji af sér vantraust sé hann pólitískt ábyrgur og þeirra forsætisráðherra? Er það skoðun Viðreisnar? Þau tjá sig ekki um þetta mál. Það er engin tilviljun eða tossaskapur við fundarsköp.