146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:30]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kem hér aftur upp í ræðustól til að skýra mál ögn út fyrir 1. þm. Reykv. s., hinum glaðbeitta Brynjari Níelssyni. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að ráðherra í ríkisstjórn Íslands geti svarað því með nokkrum hætti þegar breskur ríkisborgari er færður úr flugvél án útskýringa og haldið eftir hér á landi án nokkurra útskýringa. Til þess að rifja það upp, bæði fyrir hinum glaðbeitta þingmanni og ráðherra dómsmála, þá spurði ég í gær: Hver er skýring ráðherra á þeim aðgerðum sem voru framkvæmdar af hálfu íslenskra yfirvalda og beindust að breskum ríkisborgara á leið sinni til Bandaríkjanna? Hver er ástæðan fyrir því að íslensk stjórnvöld héldu manninum eftir hér á landi og á hvaða grunni voru þær ákvarðanir teknar? Hver er ábyrgð íslenskra stjórnvalda gagnvart fólki sem svona er komið fram við? Engin svör bárust. Engin.