146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:50]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Umræður um skýrslur hafa tekið mikinn tíma undanfarna daga og vikur, ekki hvað síst er varðar tímasetningu birtingar þeirra. Ég ætla ekki að höggva í sama knérunn hér, heldur vil ég gera að umtalsefni hvernig brugðist er við skýrslum.

Oft heyrist sagt að skýrslur þjóni þeim tilgangi að drepa málum á dreif og að þær dagi uppi í skúffum þeirra ráðuneyta sem um þær biðja. Ég vil nefna eitt dæmi hér um skýrslu sem ekkert var gert með, jafnvel þótt það kæmu skýrar ábendingar um hvernig færa mætti mál til betri vegar. Þessi skýrsla fjallar um Matvælastofnun.

Matvælastofnun hefur frá stofnun árið 2008 sætt harðri gagnrýni, ekki síst af hálfu aðila í búrekstri, og hafa fjölmiðlar oftsinnis fjallað um mál í því sambandi. Ríkisendurskoðun tók starfsemi Matvælastofnunar til gagngerrar endurskoðunar og skilaði ítarlegri skýrslu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis árið 2013. Þar er ráðuneytinu bent á að setja þurfi lagaramma um stofnunina þar sem skýrt sé kveðið á um hlutverk hennar, verkefni, stjórnun o.fl., auk þess sem spurt er hvort matvælaeftirlit á Íslandi verði ekki skilvirkara, hagkvæmara og árangursríkara ef það verði sameinað á eina hönd.

Þá benda skýrsluhöfundar á að fjármagn verði að fylgja þeim lögbundnu verkefnum sem MAST er ætlað að sinna o.s.frv. Tveimur og hálfu ári síðar, í apríl 2016, skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu um eftirfylgni við málið. Þá kemur í ljós að ráðuneytið hafði ekkert gert til að bregðast við þessum ábendingum.

Nú eru liðin þrjú ár. Það er augljóslega einhver brotalöm í starfsemi og kerfi þessarar stofnunar, (Forseti hringir.) eins og sýndi sig berlega þegar hið svokallaða Brúneggjamál kom upp. Ég segi því: Birtum skýrslur jafn skjótt og þeim er skilað og tökum mark á því sem í þeim stendur.


Efnisorð er vísa í ræðuna