146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:52]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Glögg sem ég er þá skynja ég það að fulltrúa Viðreisnar var saknað úr tveimur umræðum á þingi í gær. Mér er það eiginlega bæði ljúft og skylt að nota tækifærið hér, fyrst ég á þetta slott, og láta hugleiðingar mínar um ferðaþjónustu og heilbrigðisþjónustu bíða betri tíma. Þetta voru tvær umræður í gær, annars vegar um skil á skýrslu þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Það hefur einfaldlega komið mjög skýrt fram í umræðum, m.a. í fjölmiðlum, alveg í upphafi, hver afstaða Viðreisnar til þess máls er. Við teljum það ekki til eftirbreytni að birta ekki skýrslur og önnur opinber gögn um leið og þau liggja fyrir. Í anda áherslu Viðreisnar á mikilvægi opinnar og upplýstrar umræðu þá tók það sem dæmi hæstv. fjármálaráðherra úr röðum Viðreisnar ekki langan tíma, einn til tvo daga að mig minnir, að birta seinni skýrsluna sem var til umræðu í gær, þ.e. um niðurgreiðslu á verðtryggðum lánum.

Varðandi afstöðu Viðreisnar til þeirrar skýrslu er staðreyndin sú að til þess máls alls var stofnað og það afgreitt og gekk í gegn áður en Viðreisn sem stjórnmálaafl var stofnuð. Afstaða okkar til þessa máls liggur því bara ekki fyrir. Ég gæti staðið hér og lýst persónulegri afstöðu minni á því máli og mörgum öðrum en held að það sé ekki það sem menn kalla eftir. (Gripið fram í: Jú, jú.) — Seinna. Við höfum einfaldlega talið það betri leið fyrir okkur að líta til framtíðar og taka önnur mál fyrir. (Forseti hringir.)

Svo langar mig að lokum að segja aftur að í anda áherslu okkar á opna og upplýsta umræðu og áherslu okkar, og ég held nú flestra annarra, á málfrelsi þá er það svo (Forseti hringir.) að við í Viðreisn áskiljum okkur rétt til að ákveða sjálf hvenær við komum hingað upp og tökum til máls og hvenær ekki. Ég er alveg til í að virða venjur og hefðir og geri það upp að vissu marki en málfrelsi mun ég ekki láta frá mér, ekki fyrir mína hönd og ekki fyrir hönd Viðreisnar.