146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:57]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Hæstv. forseti. Samningurinn um EES, þ.e. EES-samningurinn, er langmikilvægasti viðskipta- og samstarfssamningur okkar við önnur ríki. Með honum tengjumst við Evrópusambandinu sterkum böndum ásamt Noregi og Liechtenstein. Það er afar brýnt fyrir hagsmuni okkar að rækta þann samning og sinna af alúð. Sennilega hefur það aldrei verið jafn aðkallandi og einmitt um þessar mundir. Nægir að benda á þróunina í Bandaríkjunum með nýjum forseta og það að Bretland mun hefja viðræður um útgöngu sína úr Evrópusambandinu á næstu mánuðum.

Um síðustu mánaðamót birti Eftirlitsstofnun EFTA reglubundna skýrslu sína um innleiðingu EES-ríkjanna á tilskipunum og reglugerðum sem teknar eru upp í EES-samninginn. Skemmst er frá því að segja að þar stöndum við okkur illa. Fyrrverandi ríkisstjórn kynnti sérstaka Evrópustefnu sína í mars árið 2014. Kjarni hennar var að efla EES-samstarfið og gera gangskör að því að laga viðvarandi innleiðingarhalla en það gekk ekki eftir.

Það eru mikil vonbrigði að okkur hefur farið aftur og að í upphafi þessa árs erum við með innleiðingarhalla sem er um 2,2% á meðan hann er 0,2% hjá Noregi en 0,9% hjá Liechtenstein. Hér verðum við einfaldlega að gera bragarbót. Þess vegna fagna ég því að hæstv. utanríkisráðherra hefur lýst metnaði sínum til að taka til hendinni, samanber yfirlýsingar hans eftir fund með Frank Bakke-Jensen, EES- og Evrópumálaráðherra Noregs, sem bar einmitt upp á sama dag og eftirlitsstofnunin birti skýrslu sína þann 31. janúar sl.

Hæstv. forseti. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn, nefndir Alþingis og þingmenn alla til þess að vinna saman að því að útrýma eins fljótt og verða má þessum innleiðingarhalla. (Forseti hringir.) Ég veit reyndar fyrir víst að vilji stendur til þess. Engu að síður vil ég hvetja okkur öll til dáða í þessum efnum. Það er sameiginleg skylda okkar að sinna EES-samningnum, standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt honum og tryggja þannig fyrirtækjum og borgurum þau réttindi og það réttaröryggi sem þeim ber.


Efnisorð er vísa í ræðuna