146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

störf þingsins.

[16:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Vegna ummæla hv. þm. Nichole Mosty hér áðan finnst mér rétt að árétta að við atkvæðagreiðslu um frumvarpið um leiðréttingu á verðtryggðum fasteignalánum voru Vinstri grænir, Samfylkingin og Píratar allir á móti. Það var Björt framtíð líka reyndar. En mér finnst leiðinlegt þegar menn fara fram með hálfsannleik og reyna að villa um fyrir fólki.

En ég ætlaði reyndar að tala um húsnæðismál sem eru auðvitað miklu brýnni mál í augnablikinu. Í viðtali við tvo fasteignasala í Fréttablaðinu í morgun kemur fram að íbúðir í öllum hverfum borgarinnar fari á yfirverði og fólk sé jafnvel að bjóða í húsnæðið án þess að hafa séð það. Þetta ber allt að sama brunni. Það hefur skapast neyðarástand á húsnæðismarkaði sem bitnar langharðast á efnalitlu og ungu fólki.

Á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun kom fram hjá fulltrúum ASÍ að í fjárlögum væri aðeins fjármagn fyrir 300 af þeim 600 íbúðum sem var lofað í ár í tengslum við kjarasamninga. Í sérstakri umræðu Samfylkingarinnar við nýjan ráðherra húsnæðismála voru þessi mál til umræðu. Ekki var hægt að skilja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra öðruvísi en að til stæði að efna þessi loforð. Ríkisstjórnin hefur haft nægan tíma til að leggja fram trúverðuga og fjármagnaða leið og koma henni á framfæri en ekkert gert.

Stjórnvöld verða strax með áþreifanlegum hætti að fullvissa aðila vinnumarkaðarins um að staðið verði við samkomulag sem var gert samhliða síðustu kjarasamningum um uppbyggingu 2.400 íbúða fyrir árið 2019. Hvað stendur í veginum? Af hverju hafa þessi loforð ekki verið efnd með skýrari hætti? Það verður þingheimur en ekki síst almenningur að fá að vita strax.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna