146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

matvælaframleiðsla og matvælaöryggi.

[16:11]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Framboð og aðgengi að nægri fæðu og öryggi matvæla til neyslu eru ætíð á meðal mikilvægustu mála á hverjum tíma um allan heim því að öll þurfum við að borða til að lifa. Þessum tveimur hlutum er oft ruglað saman í umræðunni, annars vegar fæðuöryggi, sem þýðir að nægt framboð fæðu sé til staðar, og hins vegar matvælaöryggi, þ.e. að matvælin séu örugg til neyslu. Ágætt er að skerpa aðeins á þessu áður en lengra er haldið.

Matvælaöryggi er mjög hátt á Íslandi, ef ekki það hæsta sem gerist í heiminum. Tíðni sýkinga vegna matvæla er mjög lág. Ástæður þess að við höfum náð svo góðum árangri, svo að eftir er tekið, er m.a. sáralítil notkun fúkkalyfja, en það er á pari við Norðmenn, og aðrar þjóðir koma langt á eftir okkur, gott eftirlit og bann við notkun hormóna í fóðri. Fátt er verðmætara en heilnæm og örugg fæða. Viljum við breyta því? Ég tel að með innflutningi á hráu kjöti værum við að grafa undan matvælaöryggi á Íslandi en mig langar að heyra viðhorf hæstv. ráðherra varðandi það.

En snúum okkur að fæðuörygginu. Þingflokkur Framsóknarmanna lagði fram þingsályktunartillögu á 141. þingi um mótun stefnu um fæðuöryggi, að skilgreina ógnir við fæðuöryggi og að undirbúa viðeigandi viðbrögð við þeim. Í greinargerð með tillögunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Margir þættir geta stefnt fæðuöryggi Íslendinga í hættu, til að mynda náttúruhamfarir sem gætu m.a. skaðað dreifikerfi þau sem treyst er á, ekki síst þar sem dreifikerfin eru að stórum hluta til staðbundin, svo sem í Reykjavík. Búfjárstofnar hér á landi eru afar viðkvæmir fyrir mögulegum utanaðkomandi sýkingum og mikilvægt er að íslensk stjórnvöld geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að vernda íslenska búfjárstofninn og tryggja þannig fæðuöryggi. Skortur á olíu getur haft gríðarleg áhrif á sjávarútveg og landbúnað og þar af leiðandi á fæðuöryggi þjóðarinnar. Bilanir í rafmagnskerfi landsins geta sömuleiðis valdið miklum skaða þar sem rafmagnið er undirstaða þeirra geymsluaðferða sem notaðar eru í dag. Jafnframt er hætta fólgin í því hversu mjög íslensk framleiðsla byggist á innflutningi, það takmarkar matvælaframleiðslu gríðarlega ef lokast fyrir innflutning auk þess sem litlar sem engar matarbirgðir eru að staðaldri í landinu og næsta ómögulegt að bregðast við ef skyndilegt neyðarástand skapast.“

Hæstv. forseti. Að þessu sögðu má draga þá ályktun að mikilvægt sé að framtíðarlandbúnaðarstefna landsins liggi fyrir með afmarkaðri heildrænni stefnumörkun í fæðu- og matvælaöryggismálum. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra:

1. Ætlar ráðherra að breyta kerfinu og þá hvernig?

2. Ætlar ráðherra að breyta reglum um innflutning á búvörum og þá hvernig?

3. Hefur ráðherra hug á því að leggja fram heildræna stefnu varðandi fæðu- og matvælaöryggi?

Eftir að hafa lesið stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um landbúnaðarmál er ég litlu nær. Í honum stendur m.a., með leyfi forseta:

„Leggja ber áherslu á að draga ekki úr hagkvæmni og styðja áfram við jafna stöðu bænda eins og kostur er.

Endurskoðun búvörusamnings verður grunnur að nýju samkomulagi við bændur sem miðað er við að ljúki eigi síðar en árið 2019. Verður af hálfu stjórnvalda hvatt til að vægi almennari stuðnings verði aukið, svo sem til jarðræktar, fjárfestingar, nýsköpunar, umhverfisverndar og nýliðunar, en dregið úr sértækum búgreinastyrkjum.“

Hér skulum við staldra aðeins við. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers konar stuðning á að auka og með hvaða hætti á hann að fara fram? Hvaða fjárhæðir erum við að tala um í þessu samhengi? Einnig hef ég áhuga á að fá nánari upplýsingar um hvernig ráðherra sér fyrir sér að draga úr sértækum búgreinastyrkjum. Hvaða styrki er um að ræða? Hversu mikið verður dregið úr þeim? Hvaða kostir fylgja því að mati ráðherra að draga úr sértækum búgreinastyrkjum? Hefur ráðherra velt því fyrir sér hvort það hafi sérstaka ókosti í för með sér og þá hverja?

Í stjórnarsáttmála er líka talað um að endurskoða þurfi ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar.

Þarna vil ég líka staldra við og fá nánari skýringar frá hæstv. ráðherra um hvaða „viðeigandi breytingar“ er átt við. Hvaða sýn hefur hæstv. ráðherra varðandi framtíð mjólkuriðnaðarins á Íslandi?

Garðyrkjan er mér einnig ofarlega í huga. Ég sé að tíminn er að renna frá mér, ég ætla þá ekki að fara nánar í það að við erum að flytja allt of mikið inn af grænmeti og framleiða miklu minna en við gætum mögulega gert. En raforkukostnaðurinn er allt of hár og mig langar að heyra skoðanir hæstv. ráðherra á framtíð garðyrkjunnar og hvernig hún sér fyrir sér aðkomu stjórnvalda í þeim efnum.

Að lokum: Hyggst hún halda áfram verkefninu Matvælalandið Ísland sem var hleypt af stokkunum árið 2015?