146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

matvælaframleiðsla og matvælaöryggi.

[16:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að taka upp brýn mál tengd landbúnaðinum. Það verður að segjast eins og er að þær spurningar sem ég fékk voru margar, eins og ég kom á framfæri við hv. þingmann, og mér er til efs að ég nái að svara öllum. Ég heyrði það líka í annars ágætri ræðu hv. þingmanns að fleiri spurningar bættust við þannig að umræðan verður kannski ekki eins upplýst og ég hefði kosið, en ég reyni að gera mitt besta. Ég vona að við getum aftur rætt, og við gerum það örugglega, málefni landbúnaðarins.

Matvælaframleiðsla er okkur mikilvæg og hún er óumdeilanlega ein af undirstöðum íslensks atvinnulífs. Sjávarútvegurinn eins og við þekkjum, veiðar og vinnsla, skapar miklar útflutningstekjur, en landbúnaðurinn þjónar okkur með fjölbreyttri og góðri framleiðslu og þjónar fyrst og fremst innanlandsmarkaði með ákveðnum frávikum.

Stefna ríkisstjórnarinnar er tvímælalaust að byggja upp enn frekar þessar atvinnugreinar, efla þær og auka verðmætasköpun með því að ýta undir nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi og heilbrigða samkeppni. Í stjórnarsáttmálanum er þess sérstaklega getið að neytenda- og umhverfissjónarmið skuli höfð að leiðarljósi. Markmið okkar er að samrýma enn betur hagsmuni bænda, neytenda, framleiðenda og umhverfis. Þessir þættir geta farið saman.

Matvælaöryggi er stór breyta í samþættingu þessara hagsmuna. Hv. þingmaður spurði um stefnu um fæðuöryggi og matvælaöryggi. Ég held að við þurfum að ramma þetta enn frekar inn. Ég vænti samstarfs í þeim efnum. Hér á landi búum við að mörgu leyti við kjöraðstæður hvað þetta varðar, t.d. vegna veðurfars og hreinnar náttúru. Það birtist m.a. í lítilli þörf fyrir notkun skordýraeiturs eða lyfja í landbúnaði. Við Íslendingar höfum ákveðna sérstöðu í þessu sambandi sem við getum og eigum að gera okkur mat úr. Þar liggja m.a. okkar styrkleikar umfram aðrar þjóðir.

Þess vegna legg ég áherslu á að við tökum upp og innleiðum skilvirkt vottunarferli sem staðfestir gæði og heilnæmi íslenskra afurða en ekki síður að við eflum og tryggjum virkt eftirlit með því að gæðaviðmiðum sé fylgt í hvívetna. Þarna mætast enn og aftur hagsmunir neytenda, bænda og framleiðenda.

Í samræmi við þessa stefnu hefur nýlega verið tekin upp reglugerð um upprunamerkingar á kjöti. Það er verið að taka upp reglugerð um lífræna vottun. Það er einnig í skoðun að koma upp eftirlits- og vottunarkerfi vegna notkunar sýklalyfja í landbúnaðarframleiðslu sem ætti heldur betur að undirstrika sérstöðu íslenskrar framleiðslu.

Loks tel ég einnig mikilvægt að við skoðum kerfisbundna skimun fyrir fjölónæmum bakteríum líkt og nágrannaþjóðir okkar gera til þess að undirstrika enn og aftur sérstöðu íslenskrar framleiðslu.

Ef ég kem að innflutningnum þá erum við Íslendingar af ýmsum ástæðum, ekki síst vegna smæðar landsins, mjög háðir innflutningi á matvælum. Í öllum grundvallaratriðum gilda sömu reglur hér og í Evrópu. Það verður þó að segja að eina undantekning á þessu er innflutningur á hráu, ófrosnu kjöti, sem ekki hefur verið leyfður. Síðastliðið haust komst Héraðsdómur Reykjavíkur hins vegar að þeirri niðurstöðu að bannið væri ekki í samræmi við skyldur Íslands samkvæmt EES-samningnum. Ég ákvað að sjálfsögðu að áfrýja dómnum til Hæstaréttar til þess að fá endanlegan botn í það mál. Sá dómur kemur væntanlega með haustinu.

Tollkvótarnir. Samkvæmt nýlegum samningi við ESB liggur fyrir að innflutningskvótar fyrir landbúnaðarvörur munu aukast verulega. Það gerist líklega í sumar eftir að þingið er búið að samþykkja þetta fyrir sína parta. Í þeirri vinnu við endurskoðun á regluverkinu verða hagsmunir neytenda hafðir að leiðarljósi hvað varðar verð og vöruúrval. Ég geri mér hins vegar fyllilega grein fyrir því að þetta er mjög snúið mál, það er ekki auðleyst, en markmiðin eru skýr; að koma til móts við hag neytenda. Á endanum, þegar þetta kemur hingað til þingsins, er það að sjálfsögðu þingsins að leysa farsællega úr þessu máli. Ég kalla eftir samstarfi við hagsmunaaðila sem og þingið í þessu.

Það eru margar spurningarnar. Ég er ekki nema rétt búin með einn þriðja af spurningum hv. þingmanns. En ég vil draga það fram að í nýsamþykktum búvörusamningum sem eru til endurskoðunar á næstu árum voru stigin ákaflega mikilvæg og ákveðin skref til þess að gera stuðninginn almennari en áður hefur verið, þ.e. að bændur séu ekki eins bundnir af því af hvaða búgrein þeir stunda eða að stuðningurinn sé of mikið bundinn við einstaka tegundir búfjár eða afurða. Flest ríki hafa lagt áherslu á að draga úr framleiðslutengdum stuðningi og fara yfir í óframleiðslutengdan stuðning. Ég tel það vera jákvæða þróun. En ég vil líka undirstrika að þetta er sérstaklega hjá endurskoðunarnefndinni, en ég tel að þessi þróun geti aukið frelsi bænda til þess að fara nýjar leiðir (Forseti hringir.) og geti ýtt undir enn frekari nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi.

Eins og ég gat um, (Forseti hringir.) frú forseti, þá hefði ég viljað svara öllum spurningum hv. þingmanns en ég reyni að koma að þeim í seinni ræðu minni.