146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

matvælaframleiðsla og matvælaöryggi.

[16:25]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir frumkvæði hans að þeirri umræðu sem hér fer fram. Hún er ákaflega mikilvæg.

Ég vil í upphafi segja að við höfum í gegnum tíðina tekið mjög margar stórar ákvarðanir fyrir íslenskan landbúnað. Við höfum rammað íslenskan landbúnað inn í reglur og regluverk sem við höfum gengið miklu lengra með en margar þjóðir. Við gerðum það 1965, útilokuðum notkun hormóna og vaxtarhvetjandi efna í kjötframleiðslu. Það gerðum við með opin augun fyrir því að við værum mögulega að skaða samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar til lengri tíma litið.

Að frumkvæði bænda var samþykkt á búnaðarþingi árið 1985 bann við því að nota sýklalyf í fóður. Það er grunnurinn að því að við höfum einstaka stöðu í Evrópu sem mælir notkun sýklalyfja í matvælaframleiðslu sem birtist okkur í niðurstöðum hennar. Við erum í því sæti sem allir öfunda okkur af að vera í, við deilum því hins vegar með Norðmönnum og erum í einstakri stöðu í þeim efnum. Þá stöðu eigum við að sjálfsögðu að verja.

Þetta rammar inn það sem við getum sagt að sé sérstakt við íslenskan landbúnað. Það skulum við verja. Við skulum líka viðurkenna það í samkeppni við landbúnað sem leyfir sér allt önnur starfsskilyrði en við höfum leyft hér á landi og við getum þess vegna ekki borið hann saman og látið hann keppa berskjaldaðan gagnvart þeirri framleiðsluaðstöðu.

Ég vil líka, virðulegi forseti, nefna að í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar er talað um jafna stöðu bænda um allt land. Það er ákaflega mikilvægt að við undirstrikum það sérstaklega. Það tengist m.a. þessari frægu undanþágu sem mjólkuriðnaðurinn hefur frá samkeppnislögum. Auðvitað má koma henni betur fyrir og ræða hana sérstaklega, en hún er gríðarlega mikilvæg til að allir bændur um allt land hafi jafna stöðu.

Ég hef áhyggjur af því, virðulegi forseti, að við stefnum hraðbyri í mikið vandamál í sauðfjárrækt í landinu. Ég myndi vilja ræða það mögulega síðar á öðrum vettvangi við hæstv. landbúnaðarráðherra. Ég ber (Forseti hringir.) ugg í brjósti yfir því að ekki muni allir bændur geta fengið auðveldlega slátrun á sínum lömbum (Forseti hringir.) í haust ef fram fer sem horfir.