146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

matvælaframleiðsla og matvælaöryggi.

[16:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég þakka umræðuna hér í dag. Mér finnst afskaplega jákvætt hvernig hv. þingmenn nálguðust þessa umræðu um landbúnaðarmál þó að við höfum ekki náð að fara inn á alla þætti sem fyrirspyrjandi minntist á. Ég tek fram að ég ætla að taka þátt í fleiri umræðum um þessi mikilvægu málefni.

Förum aðeins yfir þetta. Hér er verið að tala um að auka frelsi bænda. Við ætlum að gera það. Passa upp á landnýtinguna. Já. Dýravelferðina. Já. Við ætlum að tryggja byggðafestuna í tengslum við landbúnað. Við segjum já við því. Við ætlum að skoða sérstaklega stefnuna varðandi fæðuöryggi. Við erum öll sammála um þessi mikilvægu atriði.

Hv. þm. Þórunn Egilsdóttir kom inn á opinberu klasastefnuna og ég held að það sé alveg ljóst, m.a. í tengslum við fund sem ég átti í morgun með forsvarsmönnum frá Matís, að tækifæri felast í að huga að því að stofna vöruþróunarsetur landafurða. Við setjum á laggirnar stýrihóp um aukin verðmæti innan landbúnaðarins og þannig mætti áfram telja.

Ég var líka spurð um samkeppnismál, varðandi ákvæði búvörulaga: Já, við munum skoða þau sérstaklega, m.a. vinna út frá forsendum sem eru gegnsæi og jafnræði. Við viljum tryggja neytendum gæðavörur á sanngjörnu markaðsverði og við viljum gera nýjum og smærri framleiðendum kleift að keppa á jafnréttisgrundvelli gagnvart stærri aðilum á markaði. Þetta verðum við allt að skoða. En við verðum auðvitað að fara varlega.

Það er hárrétt sem hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði hér áðan. Við Íslendingar erum í kjöraðstöðu til að gera hlutina rétt, gera hlutina saman í þágu bænda, í þágu umhverfis og í þágu neytenda. Ef við förum rólega en vitum hver markmiðin eru óttast ég ekki að við verðum ekki með eina bestu landbúnaðarstefnu í Evrópu ef svo ber undir.