146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[16:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Nichole Leigh Mosty) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, frá meiri hluta velferðarnefndar.

Á síðasta löggjafarþingi voru samþykkt á Alþingi lög 116/2016, um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1990. Lögin öðluðust gildi 1. janúar 2017 og fólust í þeim miklar breytingar á almannatryggingakerfinu, einkum hvað varðar ellilífeyri. Frumvarp það sem varð að lögum nr. 116/2016 byggði að mjög miklu leyti á tillögum nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar, sem oft er kennd við Pétur heitinn Blöndal. Meginmarkmið lagabreytinganna var að einfalda lífeyristryggingakerfið, auka rétt þeirra sem áunnið höfðu sér engan eða lítinn rétt í lífeyrissjóðakerfinu og auka möguleika fólks til sveigjanleika við starfslok og upphaf lífeyristöku. Er óhætt að fullyrða að með samþykkt laganna hafi náðst stór og mikilvægur áfangi í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar, endurskoðun sem mun halda áfram á þessu kjörtímabili.

Almannatryggingakerfið er annað tveggja lífeyristryggingakerfa sem hér hefur verið komið á með lögum. Hlutverk almannalífeyristryggingakerfis er einkum að tryggja þeim sem á þurfa að halda bætur vegna elli og örorku. Samkvæmt almannatryggingalögunum gildir því sú meginregla að allar skattskyldar tekjur lífeyrisþegans hafa áhrif á fjárhæð til bóta frá almannatryggingum og gildir það einnig um greiðslur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Kemur það skýrt fram í 2. mgr. 16. gr. laganna. Þar er einkum að ræða tekjur af atvinnu, greiðslur úr lífeyrissjóðum og fjármagnstekjur.

Í 3. og 4. mgr. 16. gr. laganna eru aftur á móti taldar upp nokkrar ívilnandi undanþágur frá meginreglunni þar sem tilgreint er hvaða tekjur skuli ekki reiknaðar með við útreikning bóta þrátt fyrir meginregluna sem fram kemur í 2. mgr. Séreignarlífeyrissparnaður, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og bætur úr slysatryggingum almannatrygginga, auk félagslegrar aðstoðar ríkisins, eru dæmi um tekjur sem undanþegnar eru við útreikning bóta.

Með lögum nr. 116/2016 voru m.a. gerðar breytingar á 16. gr. laga um almannatryggingar. Eftir að lögin voru birt kom í ljós að við vinnslu frumvarpsins hafði komið inn villa sem var þannig að hinn nýi bótaflokkur ellilífeyris samkvæmt 17. gr. og ráðstöfunarfé samkvæmt 48. og 56. gr. laga um almannatryggingar, höfðu færst í 3. mgr. 16. gr. þar sem m.a. greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum eru tilgreindar. Þessir bótaflokkar áttu hins vegar að færast í 4. mgr. 16. gr., en þar eru greiðslur frá lífeyrissjóðum ekki tilgreindar. Þannig var ætlun löggjafans að sama regla ætti við um útreikning ellilífeyris og ráðstöfunarfjár ásamt tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. En aftur á móti átti 3. mgr. 16. gr. laganna, sem undanskilur m.a. greiðslur úr lífeyrissjóðum, tekjuútreikninga, eingöngu að eiga við um útreikning örorkulífeyris, svokallaðs grunnlífeyris til öryrkja.

Hér hafa því átt sér stað mannleg mistök sem ekki uppgötvuðust fyrr en eftir að lögin höfðu öðlast gildi þrátt fyrir mikla yfirlegu og yfirlestur margra aðila. Þessi mistök verður nú að leiðrétta. Verði það ekki gert gæti það haft þau áhrif að greiðsla frá lífeyrissjóðakerfinu yrði undanskilin við útreikning hins nýja ellilífeyris og ráðstöfunarfjár, en það er ekki í samræmi við vilja löggjafans. Sá vilji kemur glöggt fram í lögskýringargögnum, einkum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 116/2016, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Lagt er til að litið verði heildstætt á allar tekjur ellilífeyrisþega, burt séð frá því um hvers konar tekjur er að ræða, með örfáum ívilnandi undantekningum. Þá er lagt til að allar tekjur ellilífeyrisþegans hafi sama vægi við útreikning ellilífeyris, að skerðingarhlutfall vegna tekna verði 45% og að svokölluð frítekjumörk vegna einstakra tegunda tekna verði afnumin.“

Það segir á öðrum stað, með leyfi forseta:

„Áfram er gert ráð fyrir að ákveðnar tegundir tekna, svo sem greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, verði undanskildar við útreikning á tekjuviðmiðinu.“

Þarna er ekkert minnst á greiðslur úr lífeyrissjóðum, enda var ekki ætlun að undanskilja þær við útreikning hins nýs ellilífeyris frá almannatryggingum. Ef það hefði verið ætlun löggjafans að undanskilja þær greiðslur við útreikninginn má ætla að það hafi verið sérstaklega tekið fram í bæði í almennum athugasemdum og í athugasemdum við 1. gr. laganna, svo ekki sé talað um kostnaðarmat fjármála- og efnahagsráðuneytisins, enda hefði það falið í sér mikla stefnubreytingu í lífeyrismálum með hliðsjón af hlutverki almannatrygginga og auk þess leitt til stóraukinna útgjalda hins opinbera í málaflokknum langt umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlögum þessa árs.

Því til stuðnings vil ég enn fremur benda á að í töflu með greinargerð frumvarpsins sem sýnir fjárhæð ellilífeyris almannatrygginga til einstaklinga með lífeyri úr lífeyrissjóðum fyrir og eftir lagabreytingu kemur það greinilega fram að greiðslur ellilífeyris og heimilisuppbót fara lækkandi með hækkandi greiðslum úr lífeyrissjóðum, enda er það meginatriði varðandi forgangsröðun og samspil þessara tveggja meginstoða lífeyristryggingakerfisins sem hér hefur verið komið á. Einnig kemur þetta skýrt fram í mati á efnahagslegum áhrifum frumvarpsins þar sem m.a. er tekið fram að aukin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðakerfinu hafi þau áhrif að minna greiðist úr almannatryggingum.

Loks vil ég nefna að í tillögum nefndarinnar um endurskoðun laga um almannatryggingar sem frumvarpið byggir á er augljóslega gert ráð fyrir því að greiðslur úr lífeyrissjóðum skuli hafa áhrif á útreikning hins nýja bótaflokks ellilífeyris.

Virðulegur forseti. Ég held að það hljóti allir að vera sammála um að vilji löggjafans stóð til þess að við útreikning ellilífeyris og ráðstöfunarfjár samkvæmt lögum um almannatryggingar og útreikning heimilisuppbótar til ellilífeyrisþega samkvæmt lögum um félagslega aðstoð skyldu allar tekjur ellilífeyrisþega hafa sama vægi. Gildir það um allar tekjur, þar með talið greiðslur úr lífeyrissjóðakerfinu að frátöldum þeim ívilnandi undantekningum sem nú eru taldar upp í 4. mgr. 16. gr. almannatrygginga. Því er mikilvægt að löggjafinn bregðist hratt við og leiðrétti villuna nú þegar, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi því sem hér hefur verið lagt fram, þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um hvað sé hið rétta í málinu. Það er nauðsynlegt að leiðrétting gildi um þá einstaklinga sem öðlast höfðu rétt til ellilífeyris eða ráðstöfunarfjár um síðustu áramót þegar lög nr. 116/2016 öðluðust gildi, en einnig þá sem öðlast hafa réttinn eftir þann tíma, jafnvel þótt þeir kunni að sækja um greiðslur almannatrygginga síðar til Tryggingastofnunar ríkisins.