146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:01]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði hugsað mér að koma hingað til að spyrja hv. þingmann að því hvað þessi leiðrétting mundi kosta ríkissjóð. Það kom fram í máli hv. þingmanns að það sneri öfugt, að það yrði kostnaður af því að leiðrétta þetta ekki. Þar sem þetta tók gildi 1. janúar þá er áhugaverð spurning hvað þetta hefur kostað hingað til.

Einnig er talað um það í greinargerðinni að ákvæðið eigi að taka gildi frá sama tíma og lög nr. 116/2016 öðlast gildi, þ.e. 1. janúar 2017. Þá er ég forvitinn að vita: Tíðkast það almennt að samþykkja lög sem hafa virkni aftur í tímann?

Þriðja atriðið: Nú kemur þetta mál frá meiri hluta velferðarnefndar og ég er forvitinn að vita um ferlið í þessu. Nú er ég nýr og er að læra hlutina, en mér finnst eins og þessi leiðrétting hefði átt að koma frá ráðherra. Ég spyr hvort hægt sé að rekja það aðeins hvers vegna þetta kemur frá meiri hluta velferðarnefndar en ekki frá ráðherra.