146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Smára McCarthys þar sem málið er lagt fram af meiri hluta velferðarnefndar. En samkvæmt lögum um opinber fjármál ákveður ráðherra að leggja mat á fjárhagsleg áhrif frumvarpa áður en þau eru lögð fyrir ríkisstjórn og Alþingi, samkvæmt reglum um starfshætti ríkisstjórnar. En af því þetta kemur ekki frá ráðherra þarf ekki að fylgja kostnaðarmat. Þegar ég sé, eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir nefndi, afturvirkar breytingar þá hugsa ég sem svo að það hljóti að þurfa að borga þeim afturvirkt sem fengu minna að einhverju leyti. Þannig fer maður aftur á bak í lögum. Og varðandi aðila í fjárlaganefnd hefði ég mjög mikinn áhuga á að sjá lögum um opinber fjármál framfylgt og sjá kostnaðargreininguna sem kemur væntanlega í fjárlaganefnd. Ég heyrði áðan að þetta skipti milljörðum eða milljarði, ég náði því ekki alveg. Það væri ágætt ef hv. formaður nefndarinnar gæti útskýrt það aðeins nánar.