146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:15]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Nú eru að koma í ljós frekar stór mistök í vinnslu frumvarps til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Þetta mál var í vinnslu eða meðförum nefndar svo árum skipti, en einhverra hluta vegna kom það mjög seint inn í þingið. Þegar það loksins kom var mikil pressa á að klára það. Ég tók þátt í seinni umferð þeirrar meðferðar í október í fyrra. En það vill svo oft verða þannig á þingi að mikil pressa verður og mikil tímapressa er sett á svona stór mál. Þingmenn fengu nauman tíma til að rýna almennilega í frumvarpið þannig að skilningurinn væri góður enda er um mjög flókið kerfi að ræða og miðað við umfang málsins hefði þurft mun meiri tíma til að afgreiða það. Enda kemur nú í ljós að gríðarlega stór og dýr mistök voru í frumvarpinu sem enginn tók eftir og þarf nú að leiðrétta. Mér finnst sjálfsagt að leiðrétta þessi mistök. En það sem meiri hluti nefndarinnar leggur til er að breyta lagalegum rétti ellilífeyrisþega afturvirkt og flýta svo málinu í gegn með sömu handarbakavinnubrögðum og upphaflegu lögin. Þetta er fúsk sem ég get ekki tekið þátt í. Nú á að flýta þessari afturvirku leiðréttingu í gegn án þess að nægilega góð rök hafi komið fyrir því að afturvirk leiðrétting hafi ekki íþyngjandi áhrif á lífeyrisþega og án þess að fá fullvissu um hvort þetta standist yfir höfuð stjórnarskrá.

Þegar fólk fær ofgreitt hjá Tryggingastofnun þá hikar ríkið ekki við að taka peningana til baka. Núna þegar fólk hefur fengið of lítið greitt þá á að breyta lagalegum rétti afturvirkt í stað þess að greiða fyrir mistökin. Réttur einstaklingsins gagnvart ríkinu er enginn. Mér finnst ekki að það eigi að vera sjálfsagt að hagsmunir ríkisins trompi alltaf hagsmuni almennings. Ljóst er að fá þarf álit sérfræðinga til þess að fjalla um hvort fyrirhuguð breyting, sérstaklega með tilliti til afturvirkni laganna, standist stjórnarskrá eða geti mögulega skapað bótaskyldu ríkisins gagnvart ellilífeyrisþegum.