146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:24]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir að skýra mál sitt. Af því að hún talaði um að ekki hefði verið nein tímapressa á málinu þá langar mig til að spyrja út í það. Ég geri mér alveg grein fyrir að málið var unnið á mjög löngum tíma. Skilningur minn á þessu er sá að málið kemur mjög seint inn í þingið. Ég kom hingað í október og vann með öðrum þingmönnum að málinu en á meðan fann ég að allir upplifðu mikla tímapressu, það þyrfti bara að klára málið, drífa það af, af því að komið var að þinglokum og fólk hafði ekki almennilegan tíma. Þingmenn komu meira að segja hingað upp í pontu og töluðu um að þeir skildu þetta hreinlega ekki.

Ég er bara að spá í þetta út frá því að þarna er kannski ástæða fyrir því að enginn sá þessi mistök, við litum öll einhvern veginn fram hjá þessu, og hvort svona viðamikið mál hefði ekki þurft að koma fyrr í þingið og fá lengri tíma í afgreiðslu.