146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:31]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að leiðrétta þingmanninn afturvirkt, Tryggingamiðstöðin er ekkert inni í þessu máli. Það fær enginn greitt úr Tryggingamiðstöðinni en það er annað mál.

Ég held að misskilningurinn í þessari umræðu sé sá að við séum að breyta lögunum afturvirkt, þ.e. að við séum með einhverja efnisbreytingu sem er afturvirk og íþyngjandi. Það er ekki málið. Málið er að við erum að leiðrétta mistök. Það skiptir ekki máli hvort það eru tvö núll, eitt núll eða sex núll, við erum bara að leiðrétta mistökin. Það er kjarni málsins og það hefur oft gerst í lagasetningu að mistök eru leiðrétt og enginn lítur svo á að við séum að breyta lögunum afturvirkt efnislega. Það er engin efnisbreyting á leiðinni, það er bara verið að leiðrétta mistökin. Efnið, tilgangur og vilji löggjafans lá alltaf fyrir. Þetta er kjarni málsins. Um það snýst þetta. Fræðilegar ræður um afturvirkni og eitthvað eiga bara ekkert við um þetta. Það er vandamálið. Við getum alveg rifist um þessa lögfræði endalaust, en það er bara ekki kjarni málsins í þessu. Þetta er bara einföld leiðrétting á mistökum.