146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:36]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál kom inn á borð velferðarnefndar um leið og upp um það komst. Það hefur verið umræða í mörg ár, eins og áður hefur komið fram, um breytingar á almannatryggingakerfinu. Það endurspeglast kannski svolítið í þessu máli og ástæðan fyrir að þessi mistök gerast er að við tölum alltaf um eldri borgara og öryrkja í sama málinu, sem við eigum kannski bara að hætta. Sú vinna var alltaf keyrð saman í þessu máli, svo var hún aðskilin í lokin eftir þetta langa ferli. Það getur skýrt eða er möguleg ástæða fyrir því að þessi mistök verða.

Ef við skoðum öll undirbúningsgögn fyrir þessa lagasetningu þá miða þau að því að kerfið sé núna eins og Tryggingastofnun hefur greitt út samkvæmt fyrstu tvo mánuði ársins. Þá greiddi hún út í samræmi við það sem öll undirbúningsvinnan að nýja almannatryggingakerfinu miðaði að, eins og lögskýringargögnin gera ráð fyrir að almannatryggingakerfið eigi að vera, allir útreikningar gera ráð fyrir og fjárlög þessa árs. Fjárlög þessa árs gera ráð fyrir því að lögin séu eins og við ætlum að leiðrétta þau. Þessi mistök komu ekki fram fyrr en fyrir stuttu af því að þá fyrst voru lögin birt. Það eru því hvergi til nein gögn eða annað sem gaf neinum lögmætar væntingar um að eiga að fá eitthvað meira frá ríkissjóði en hann hefur verið að fá síðastliðna tvo mánuði. Þess vegna bregðumst við strax hér, leiðréttum mannleg mistök sem geta alltaf orðið þrátt fyrir alla ferla, allar áætlanir og tryggingar og hvað það heitir allt saman.

Þannig að málið er skýrt og Alþingi hefur tjáð sig með fjárlögum um að svona eigi þetta að vera. Ég held að við þurfum engar málalengingar eða einhverja umræðu um afturvirkni laga eða ekki af því að það voru ekki til nein gögn um málið sem gáfu lögmætar væntingar um annað. Það voru allir sammála um að svona ætti þetta að vera. Svo er það allt önnur umræða sem tengist þessu máli ekki neitt hvort það eigi að borga einhvern veginn öðruvísi í almannatryggingum. Þá umræðu verður bara að taka seinna. Hún á ekki við hér.