146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Nichole Leigh Mosty) (Bf):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem hefur farið hér fram varðandi þetta stórmál. Ég vil bara taka eitt augnablik til þess að lesa aftur hver þessi mistök voru, bara svo að við séum öll með á því hversu kristaltært þetta er.

Með lögum nr. 116/2016 voru m.a. gerðar breytingar á 16. gr. laga um almannatryggingar. Eftir að lögin voru birt kom í ljós að við vinnslu frumvarpsins hafði átt sér stað villa sem lýsir sér þannig að tilvísun í hinn nýja bótaflokk ellilífeyris samkvæmt 17. gr., sem og ráðstöfunarfé samkvæmt 48. og 56. gr. laga um almannatryggingar, hafði færst í 3. mgr. 16. gr., þar sem m.a. greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum eru tilgreindar. Þessi bótaflokkur átti hins vegar að færast í 4. mgr. 16. gr., en þar eru greiðslur frá lífeyrissjóðum ekki tilgreindar, öfugt við 3. mgr. Þannig var ætlun löggjafans að sama regla ætti við um útreikning á ellilífeyri ásamt tekjutryggingu örorkulífeyrisþega og ráðstöfunarfé, en aftur á móti átti 3. mgr. 16. gr. laganna, sem undanskilur m.a. greiðslur úr lífeyrissjóðum, útreikninga bóta, eingöngu að eiga við útreikning örorkulífeyris, svokallaðs grunnlífeyris til öryrkja.

Ég er engu nær því að skilja þetta en þegar ég las þetta sjálf án skýringa. Þar kom fram að mistök voru gerð við vinnslu laganna. Skiljanlega óska ég þess að það hefði ekki gerst svo ég þurfi ekki að standa hér og axla þá ábyrgð sem fylgir því að um er að ræða almannafé sem við þurfum í svo mörg brýn verkefni. Við erum að tala um 5 milljarða. Ég finn fyrir þyngslum þeirrar ábyrgðar sem ég axla hér sem formaður velferðarnefndar. Ég myndi gjarnan vilja að við hefðum meiri tíma til að ræða það, meiri tíma til að fá fleiri álit.

Ef ég mætti setja þetta fram á mannamáli, sem þessi lög eru því miður ekki á, þá lít ég á þetta mál þannig að ef við förum að leika okkur með það þá förum við með almannafé svolítið eins og lottópeninga. Þarna er fé sem var ekki ætlað til þess að greiða út. Þetta er fé sem við þurfum inn í heilbrigðiskerfið. Þetta er fé sem við þurfum í háskólakerfið okkar. Þetta er fé sem við megum ekki missa út — afsakið að ég tali aftur mannamál — bakdyramegin þegar við þurfum að horfa fram á við.

Ég myndi gjarnan vilja að ég þyrfti ekki að standa hér og tala fyrir því að setja lögin afturvirkt en ég sé ekkert nema þá ábyrgð sem ég ber sem manneskja sem er ábyrg fyrir almannafé og þau almennu prinsipp sem ég hef rætt sem eru að verja almannafé til þess sem það þarf og til þeirra sem þurfa á því að halda. Með því vil ég ljúka minni ræðu.