146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra.

77. mál
[18:11]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það eru kannski, skulum við segja til að byrja með: Hópnum er auðvitað falið að finna út hvaða leiðir eru bestar. Ég ætla ekki fyrir fram að gefa mér að beinir styrkir eða eitthvað annað slíkt séu best til þess fallnir að styðja við fjölmiðla. Þó, þær skýrslur sem ég vísa hér í, koma meðal annars inn á slíka styrki. Þess vegna vil ég ekki útiloka þá heldur. Ég hef trú á að það geti skipt máli fyrir lýðræðið að ríkið komi að því að styrkja.

Það getur verið, og ég held að við eigum að vera bara tilbúin að ræða ýmsar leiðir, þetta geta verið einhvers konar styrkveitingar, til dæmis til rannsóknarblaðamennsku. Þetta getur verið eitthvað í skattalegu umhverfi til dæmis. Ég lýsi mig reiðubúna til að skoða hvaða aðferð sem er til þess að styðja við þetta. Þess vegna hef ég verið að horfa sérstaklega á landshlutamiðlana vegna þess að margir landshlutarnir verða út undan í opinberri umræðu. Ég hygg að það sé rétt hjá hv. þingmanni að við erum kannski ekki alveg sammála í nálgun á þessu. En það var í efnahags- og viðskiptanefnd, held ég bara í fyrra, verið að ræða skattalega stöðu streymiþjónustu vegna kvikmynda á Íslandi, sjónvarpsefni og tónlist, þar sem var verið að tala um að færa það á milli þrepa. Eitthvað slíkt gæti til dæmis komið til greina. Ég held að við eigum að vera opin fyrir því. Ég trúi því nú að þingmaðurinn telji að eins og hann sagði sé lýðræðisleg umræða ekki dekkuð með þeim hætti í dag sem hún þyrfti að vera gagnvart öllum íbúum landsins. Við erum að starfrækja úti um allar koppagrundir alls konar miðla. Ég held eins og ég sagði í minni framsögu að þeir lifi ekki nema að fá einhvers konar stuðning (Forseti hringir.) og styrki, oft þá af aðilum í samfélaginu sem eru ráðandi og þræðirnir liggja víða.