146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra.

77. mál
[18:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að fagna tillögunni sem hér liggur fyrir og þakka framsögumanni hennar fyrir að leggja hana fram. Mér láðist að skrá mig á þingsályktunartillöguna og kýs því að nota þetta tækifæri til að lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við hana. Mér finnst það skipta miklu máli fyrir tjáningarfrelsið að fólk á landsbyggðinni hafi aðstöðu til að tjá hug sinn um málefni sinnar heimabyggðar. Eins finnst mér það skipta miklu máli fyrir upplýsingafrelsið að íbúar á landsbyggðinni fái gagnvirkar og áreiðanlegar upplýsingar um það sem þar gengur á.

Ég vil líka taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa rætt um mikilvægi þess að eignarhald og rekstrargrundvöllur fjölmiðla á landsbyggðinni sé bæði skýr og öruggur, þ.e. valdi því ekki að ritstjórnarlegu sjálfstæði þessara miðla sé stefnt í voða vegna þess að þeir þurfi of mikið að reiða sig á ákveðinn fjármögnunaraðila eða auglýsanda. Vil ég í þessu samhengi vísa í svokölluð kælingaráhrif sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað vísað til að geti haft mjög neikvæð og jafnvel ólögmæt áhrif á tjáningarfrelsi, þ.e. þegar aðstæður eru á þann veg að almenningur og einstaklingar eru fældir frá því að tjá sig af ótta við afleiðingar. Það getur meðal annars verið á þann veg að einstaklingar óttist að tjá sig gegn aðalstyrktaraðila sínum eða að einstaklingar óttist að tjá sig um vinnuveitendur sína. Svo er mjög mikilvægt fyrir hið svokallaða upplýsingafrelsi að almenningur, þ.e. íbúar í landi, geti verið öruggir um að þær upplýsingar sem miðlarnir sem þeir sækja í veita séu veittar af heilum hug og ekki á leyndum forsendum sem mögulega geta verið til staðar þegar um leynt eignarhald á fjölmiðlum er að ræða.

Eins vil ég ræða aðeins um að það er, eins og kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni, algengt í löndunum í kringum okkur að ákveðnir landshlutar hafi sína eigin fjölmiðla. Ég man vel eftir því úr námi mínu erlendis, bæði í Hollandi og Þýskalandi, að þar voru landsbyggðarsjónvarpsstöðvar og landsbyggðarútvarpsstöðvar og héraðsmiðlar einnig. Það er einstaklega mikilvægt að við rennum tryggum stoðum undir slíkt, enda er oft mikill munur á því sem þykir fréttnæmt á landsvísu og síðan því sem þykir fréttnæmt á hverju svæði fyrir sig.

Að lokum vil ég nefna að mér finnst líka full ástæða til að gera úttekt sem þessa á stöðu fjölmiðla á landsvísu. Ég tel frjálsa fjölmiðlun á Íslandi yfir höfuð eiga undir högg að sækja og að eignarhald á þeim sé ógagnsætt og að oft sé ekki hægt að reiða sig almennilega á þær upplýsingar sem fram koma í fjölmiðlum af því að maður veit ekki hver á þá og hverra hagsmuna þeir gæta með fréttaflutningi sínum. Af greinargerðinni fæ ég skilið að slík úttekt hafi ekki verið gerð frá 2005 og verður að segjast að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og ýmsar breytingar átt sér stað í íslensku þjóðfélagi. Ég tel því fulla ástæðu til að gera heildræna úttekt. Þó að vissulega sé ástæða til að leggja sérstaka áherslu á stöðu fjölmiðlunar á landsbyggðinni og leiðir til að efla hana megum við ekki gleyma því að staða fjölmiðla á Íslandi þarfnast nánari skoðunar og það hvernig við getum tryggt betur upplýsinga- og tjáningarfrelsi borgaranna þegar kemur að fjölmiðlafrelsi.