146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

stytting biðlista á kvennadeildum.

115. mál
[19:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna. Ég er ein af flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar um að stytta biðlista á kvennadeildum. Ég tel þetta mál vera mjög brýnt. Hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, framsögumaður málsins, kom vel inn á þá brýnu þörf sem þarna er til staðar, að stytta þessa biðlista. Það að 300 konur bíði eftir grindarholsaðgerðum, eins og hún rakti hér, er auðvitað grafalvarlegt. Það hefur áhrif á lífsgæði viðkomandi kvenna, á vinnuþátttöku þeirra, þær verða meira frá vinnu og það kostar samfélagið. Það leggst allt á eitt, það verður að gæta að þessum málum. Þótt maður trúi því ekki að þarna sé vísvitandi kynbundinn mismunur á ferðinni þá er hann vissulega til staðar. Ef menn eru sjálfum sér samkvæmir um að það eigi ekki svo að vera verður að beina fjármunum ríkisins til að mæta þessum biðlistum eins og gert var á síðasta ári, þegar lagðir voru fjármunir í að stytta biðlista á hné- og liðskiptaaðgerðum og augnsteinaskiptum. Það tókst að stytta biðlista. Þar voru margir orðnir sárþjáðir og skipti miklu máli að hraða aðgerðum hjá þeim sjúklingum.

Það eru kvennadeildir til staðar á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og á Sjúkrahúsi Akureyrar og á Landspítalanum. Það er mjög mikilvægt að efla bæði aðstöðu og sérfræðingaþjónustu á þeim stöðum til að konur geti nýtt sér það sem er þá í boði á öðrum sjúkrahúsum landsins, eins og á Akranesi og á Akureyri í þessu tilfelli, og létt þannig álaginu af Landspítalanum. Þar er gífurlegt álag. Landspítalinn stendur frammi fyrir miklum vanda varðandi vanfjármögnun ár eftir ár. Það hlýtur að bitna á einhverju, biðlistar myndast.

Ég tel því að horfa eigi til þess þegar fjárveitingavaldið deilir fjármunum í heilbrigðisstofnanir, að horfa heilt yfir, líka til heilbrigðisstofnana vítt og breitt um landið sem geta oft tekið við svokölluðu fráflæði af höfuðsjúkrahúsinu, hátæknisjúkrahúsinu okkar Landspítalanum. Það er mjög brýnt að horfa til þess líka. Þá getum við horft til fleiri sjúkrahúsa varðandi minni aðgerðir og líka að viðkomandi sjúklingur geti jafnað sig og fengið eftirmeðferð í heimabyggð sinni, hvort sem það er á Fjórðungssjúkrahúsinu á Vestfjörðum eða Neskaupstað, svo einhver séu nefnd í þeim efnum.

Ég tek undir þetta mál og trúi ekki öðru en að mjög jákvæður vilji sé til þess á þinginu að hraða meðferð þingsályktunartillögunnar svo hægt sé að beina þessu í réttan farveg sem fyrst og að fjárveitingavaldið standi með því átaki að stytta biðlista þar sem konur eru eingöngu, í þeim tilfellum.

Ég get mælt með því að fara á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Ég þurfti að gera það fyrir ári síðan, að fara í aðgerð þar vegna langra biðlista á Landspítala. Það verður enginn svikinn af þeim góða aðbúnaði, alúð og umönnun sem var á því sjúkrahúsi. Ég efast ekki um að það sama eigi við á Akureyri, eins og er á öllum þessum sjúkrahúsum okkar vítt og breitt um landið. Við þurfum bara að styrkja þau sem best til að vinna úr löngum biðlistum.