146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

stytting biðlista á kvennadeildum.

115. mál
[19:10]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að nota þetta tækifæri til að þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni fyrir innlegg þeirra og langar í stuttu máli að draga það örlítið saman. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir tók til máls og ég tek undir það sem hún sagði, það að bíða eftir aðgerð, eins og á kvennadeildum sjúkrahúsanna, hefur vissulega áhrif á lífsgæði kvenna. Það er rétt hjá henni að þær geta verið frá vinnu. Það hefur samfélagslegan kostnað í för með sér fyrir utan vanlíðan og skerðingu á lífsgæðum konunnar sem fyrir því verður.

Ég tek undir orð hennar um mikilvægi þess að við förum í átak sem þetta og horfum til þeirrar fyrirmyndar sem við höfum frá síðasta kjörtímabili þegar farið var í átak við að stytta biðlista eftir t.d. liðskiptaaðgerðum o.fl. Ég get ekki annað en tekið jafnframt undir orð hennar um mikilvægi þess að nýta tækifærið með þessari þingsályktunartillögu til að styrkja heilbrigðisstofnanir víða um land og fela þeim aukin verkefni.

Mig langar að nýta tækifærið og þakka hv. þm. Einari Brynjólfssyni fyrir þá sérstöðu sem hann hefur með því að vera sá eini af karlpeningnum sem leggur málinu lið. Það er frábært og þakka ég kærlega fyrir það. Hv. þingmaður talaði líka um mikilvægi þess að efla heilbrigðisþjónustu á landsvísu. En mig langar, vegna þeirra orða hv. þingmanns að ekki hafi verið forgangsraðað til heilbrigðismála á síðasta kjörtímabili, að segja að þó var aukið um 40 milljarða inn í heilbrigðiskerfið og 50% af útgjöldum ríkisins fóru til velferðar- og heilbrigðismála, m.a. í þarsíðustu fjárlögum. En þetta er auðvitað áminning um að halda þarf áfram að gefa í og vinna betur að þessum málum. Við getum alltaf gert betur þótt bætt hafi verið verulega í á síðasta kjörtímabili.

Mig langar að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni líka sérstaklega fyrir innlegg hans því að sá þingmaður hefur einstaklega góða þekkingu á þessu frá fyrra starfi og veit svo sannarlega hvað hann er að tala um í þessum efnum. Það er rétt hjá honum að vakin var athygli á því að það væru komnir mjög langir biðlistar í aðgerðir á kvennadeildum sjúkrahúsanna við upphaf síðasta átaks. Það er rétt sem hann segir að það var samt sem áður ákveðið að skilja þetta eftir. Ég vona svo sannarlega, og vil gera lokaorð hans að mínum, að þessi litla þingsályktunartillaga en mikilvæga þó verði til þess að heilbrigðisyfirvöld taki við sér og taki undir með okkur þingmönnum sem hér höfum talað og erum á þessu máli um mikilvægi þess að við förum í átak í þessa veru. Ég vona að svo verði.