146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

heildstæð stefna í málefnum einstaklinga með heilabilun.

62. mál
[19:39]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta er viðkvæmt málefni og lokast gjarnan inni hjá fjölskyldum og þær einangrast og vita oft og tíðum ekki hvernig þær eiga að snúa sér í sínum vanda. Við erum því miður enn á því stigi þótt við vonumst auðvitað til þess að þetta fari að verða eitthvað sem við getum rætt um opinskátt, hversu átakanlegt svo sem það er. Menn hafa jafnvel farið með þetta sem feimnismál og það hefur hvílt yfir þessu hálfgerð skömm, leyfi ég mér að segja. Menn fyrirverða sig fyrir að bera þetta á torg.

Þó eru ýmislegt teikn á lofti. Menn hafa verið að gera tilraunir með „demensvenlige kommuner“, eins og það heitir í Danmörku. Ég held ég geti upplýst hér að Vestmannaeyingar eru að velta fyrir sér að gera Vestmannaeyjar að vinsamlegum bæ gagnvart heilabiluðu fólki. Meginverkefnið er að fræða borgarana um það hvernig þessi sjúkdómur þróast, hvað hann er og hvers má vænta.

Það er því ýmislegt í farvatninu. Bent er á að erfitt sé að fá upplýsingar. Það er rétt. Það er enginn einn aðili á Íslandi sem er þessi miðstöð sem aðstandendur í vanda geta leitað til. Þetta er gríðarlegt áfall þegar þetta dynur á. Ég bendi á Alzheimersamtökin eru með öfluga heimasíðu og halda úti skrifstofu og fagfólki til að veita aðstandendum þjónustu. Sömuleiðis auðvitað Landspítali sem veitir styrkustu faglegu þjónustuna og er með próf og greinir heilabilun hjá fólki.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja fundinn frekar. Ég þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni fyrir þátttökuna og vænti þess að þetta mál fái framgang hjá velferðarnefnd.