146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

dagskrá næsta fundar.

[10:37]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í ljósi þeirra aðstæðna sem eru uppi á vinnumarkaði er ljóst að þær aðgerðir sem forsætisnefnd fór í í kjölfar bréfs til forsætisnefndar frá formönnum flokkanna eru hreinlega ekki nóg. Sú hækkun sem varð á kjörum þingmanna samkvæmt úrskurði kjararáðs var langt umfram almenna launaþróun á almennum vinnumarkaði og við sjáum fram á að það setji kjarasamninga í uppnám. Þess vegna kemur þetta frumvarp, sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson hefur nú rætt um, og þessi dagskrártillaga, af því að þetta er mál sem þarf að ræða. Þetta er mikilvægt mál. Það er mikilvægt að við leggjum okkur fram til þess að málið komist á dagskrá. Það væri mikill bragur á því ef þingið myndi loksins setja í forgang mál sem skipta máli í stað þess að vera í einhverju þrasi.