146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

rekstrarvandi hjúkrunarheimila.

[10:53]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra. Þjóðin er að eldast og við þurfum klárlega að byggja ný hjúkrunarheimili. Við getum auðvitað brugðist við með því að gefa fólki tækifæri til að búa lengur heima hjá sér en á því eru líka gallar. Pör eldast t.d. misjafnlega hratt og sá sem var kannski einhvern tímann elskhugi þarf svo að breytast í hjúkrunarfræðing á efri árum, það ýtir undir öldrun hans.

Ég mun hins vegar spyrja út í frekari uppbyggingu hjúkrunarheimila seinna en núna vil ég fá svör við þessu: Hvernig á að fjármagna þau hjúkrunarheimili sem eru í rekstri í dag? Það vantar nokkra milljarða og þrátt fyrir rammasamning sem gerður var síðasta haust vantar peninga. Þetta leggst mjög misjafnlega á sveitarfélögin, sum reka hjúkrunarheimili en önnur ekki, og t.d. er Akureyrarbær, eftir þennan rammasamning, að borga 250 millj. kr. á ári með rekstrinum. Það segir sig sjálft að þá er verið að taka peninga út úr öðrum rekstri sveitarfélagsins, úr menningu, úr listum, úr íþróttum og öðru sem gerir bæinn samkeppnishæfan. Þetta þarf að laga.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvaða áform hann hefur uppi um að bæta þennan rekstrarvanda, hver tímalínan er og hvort hann hafi haft samband nú þegar við fyrirtæki í velferðarþjónustu og sveitarfélögin í landinu sem reka hjúkrunarheimili.