146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

rekstrarvandi hjúkrunarheimila.

[10:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég trúi því einlæglega að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi áhuga á að leysa þetta mál. Það var þó með trega sem samþykki var gefið fyrir rammasamningnum hjá mörgum sveitarfélögum, einfaldlega vegna þess að það var bara lítið skref í þá átt að bæta rekstrarumhverfið. Svo ég vitni nú í framkvæmdastjóra Öldrunarheimila Akureyrar, Halldór Guðmundsson, þá segir hann í viðtali í morgun, með leyfi forseta:

„Þannig er staðan sú að daggjöldin sem eru greidd til okkar gera ekki nema að rétt að duga fyrir launum. Eftir stendur annar rekstrarkostnaður, þar með talið leiga fyrir húsnæði.“

Ef það verður dráttur á þessu þýðir það að sum sveitarfélög í landinu borga einfaldlega út úr rekstrinum og taka af öðrum málaflokkum og skerða lífsgæði íbúa sinna, skerða samkeppnisstöðu sína. Því vil ég fá að vita: Hver er tímalínan í málinu?