146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

virðisaukaskattur af íþrótta- og æskulýðsstarfi.

[11:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að fá að eiga samtal við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og ræða við hann um virðisaukaskatt og forvarnir og stýrihóp, sem síðasti hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skipaði reyndar til að endurskoða reglur, m.a. um virðisaukaskatt.

Í stjórnarsáttmála er ekki aukatekið orð um skipulagt barna- og unglingastarf, æskulýðsmál eða íþróttir. Það orð er hreinlega ekki að finna í stjórnarsáttmála, hvað þá aðgerðir til að efla starfsemi á því sviði. Stjórnarsáttmálinn er því ansi rýr þegar kemur að þeim málefnum.

Ég vil leggja áherslu á mikilvægi skipulagðrar starfsemi með börnum og unglingum á þessu sviði æskulýðsmála. Ég lagði í lok síðasta kjörtímabils, ásamt nokkrum hv. þingmönnum, fram mál þar sem meginmarkmiðið var að styðja við starfsemi íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélaga, einkum til að efla sjálfboðaliðastarf sem þessi starfsemi hvílir á og svo að mæta mjög knýjandi þörf fyrir uppbyggingu og viðhald mannvirkja.

Niðurstaðan af því varð sú að Alþingi samþykkti, að tillögu hv. efnahags- og viðskiptanefndar, að vísa málinu til stýrihóps hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra út í stöðuna, hvort hópurinn hafi skilað einhverjum tillögum. Hver er staðan á þeim málum sem ég vísaði til? Í þriðja lagi vil ég spyrja hvort núverandi hæstv. ríkisstjórn hafi í hyggju að beita slíkum aðgerðum til að styðja enn frekar við íþrótta- og æskulýðsstarf í landinu.