146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir sérstökum umræðum um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu, fyrst og fremst vegna þess að mér finnst þau mál mjög mikilvæg og þau hafi kannski í gegnum tíðina fengið allt of litla athygli í þessum sal. Við getum nefnilega ekki horft fram hjá því að langflestir Íslendingar búa á höfuðborgarsvæðinu og hingað koma flestir ferðamenn, þeir ferðast um þetta svæði. Umferðartafir á svæðinu eru orðnar töluverðar. En við í þessum sal eigum kannski fyrst og fremst að horfa til framtíðar og samkvæmt svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir því að á næstum árum eða fram til ársins 2040 aukist íbúafjöldi hér um 70.000. Þá eru ekki inni áætlanir um fjölgun ferðamanna. 70.000 manns er á við þá sem búa í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ til samans í dag þannig að þarna er um að ræða töluverðan fjölda af íbúum.

Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins var ákveðið að taka breytingu á þeirri stefnu sem hafði ríkt á árum áður en frá árunum 1985–2012 fjölgaði íbúum um svipaðan fjölda, eða hátt í 70.000. Þá fór fjöldi íbúa á hektara úr 54 íbúum í 35 íbúa. Þetta þýddi sem sagt að svæðið dreifði verulega úr sér og það þýðir óhjákvæmilega að meiri tími fer í að ferðast á milli staða, enda fjölgaði fólksbílum verulega, eða úr 67.500 í 125.500 á þeim tíma. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa komið sér saman um að breyta þessum kúrs og leggja mikla áherslu á almenningssamgöngur og borgarlínu. Þar ríkir mikil samstaða um að fara verði í það átak að leggja áherslu á breyttar ferðavenjur. Því langar mig að spyrja ráðherra hvaða sýn hann hefur á borgarlínuna og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, hvort hæstv. ráðherra taki undir mikilvægi þessa verkefnis. Vil ég þá minna á að bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu og borgarstjóri hafa ritað grein og fjallað um þetta þar. Þá er líka ljóst að kostnaður við slíka framkvæmd er töluverður, hann gæti hlaupið á bilinu 40–100 milljarðar kr. Þá langar mig að heyra frá ráðherra hvort að hann telji ekki eðlilegt að ríkisvaldið komi inn í þá fjármögnun því að á það skal bent að ef ekki verður ráðist í borgarlínuna þyrfti að fara í stofnvegaframkvæmdir fyrir góða 100 milljarða og umferðartafir myndu samt aukast við það. Stærsti hlutinn af þeim kostnaði yrði engu að síður ríkisins miðað við núverandi skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Þrátt fyrir að ég ræði sérstaklega borgarlínuna og eflingu almenningssamgangna þá ber ekki að líta svo á að það sé eina lausnin á svæðinu, enda gera áætlanir svæðisskipulagsins ráð fyrir því að engu að síður þurfi að ráðast í framkvæmdir fyrir alla vega 30 milljarða á þessu svæði. Það er nefnilega ekki svo, þó að við leggjum áherslu á almenningssamgöngur, að við ætlumst til þess að allir hjóli, gangi eða fari með strætisvögnum eða borgarlínu. Enn þá munu örugglega flestir Íslendingar ferðast með einkabíl að einhverju leyti og því er nauðsynlegt að ráðast í bætingar á stofnvegakerfi svæðisins. Mig langar að heyra um sýn ráðherrans á þetta.

Varðandi fjármögnun nýframkvæmda og viðhald vega hefur ráðherra nýverið kynnt áhugaverðar hugmyndir sem lúta að fjármögnun á stofnvegum til höfuðborgarsvæðisins og ég hlakka til að eiga umræðu um það þegar niðurstaða þeirrar vinnu liggur fyrir. Mig langar að vita hvort hafin sé einhver vinna í ráðuneytinu við að meta þau áhrif sem orkuskipti í samgöngum kunna að hafa á tekjur ríkissjóðs. Það er ljóst að við munum verða af töluverðum tekjum ef fram heldur sem horfir. Vonandi náum við þeim árangri að stór hluti af bílaflota okkar verði drifinn áfram af rafmagni. Þá má velta fyrir sér hvernig við hyggjumst fjármagna uppbyggingu og nýframkvæmdir í vegakerfinu.

Það er ýmislegt fleira sem ég myndi vilja koma að og fæ að gera það á eftir, en ég hlakka til að eiga samtal um það og ítreka að ég held að mikilvægt sé að við í þessum sal ræðum einnig um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að samgöngur á landsbyggðinni eru auðvitað mjög mikilvægar og skipta landsbyggðina mjög miklu máli en það skiptir líka miklu máli fyrir okkur á höfuðborgarsvæðinu, og rauninni alla íbúa landsins svo og ferðamenn, að umferðin hér sé örugg og gangi nokkuð greiðlega fyrir sig.