146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:22]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að biðja um þessa umræðu og hæstv. samgönguráðherra fyrir að taka þátt í henni. Ég fagna sérstaklega skýrum svörum hæstv. samgönguráðherra sem ég hef orðið var við að koma frá honum í öllum umræðum um samgöngumál. Þó að við séum ekki sammála talar hann skýrt um vilja sinn og því ber að fagna.

Það er að ýmsu að hyggja í þessu máli og hæstv. ráðherra hefur talað um og er að skipa starfshóp til að skoða fjármögnun samgöngumannvirkja á höfðuborgarsvæðinu. Við það er ýmislegt að athuga. Hann talar um að fjármunir til uppbyggingar séu af skornum af skammti. Staðreyndin er samt sú að markaðir tekjustofnar til vegamála hafa ekki verið uppfærðir í samræmi við verðlag og eru ekki allir nýttir til samgöngumála. Það væri kannski fyrsta skrefið að gera það áður en farið verður í aðrar leiðir.

Vegtollar — stundum hafa menn grautað dálítið saman hvað þá varðar. Þeir eru annars vegar til fjármögnunar, sem sparar þá ríkinu fjármuni, en hins vegar eru til vegtollar sem eru umhverfistollar og eru til þess að draga úr umferð. Ef framkvæmdir sem eru teiknaðar upp núna snúast fyrst og fremst um að greiða umferð bíla verður umferð bíla einfaldlega meiri.

Í aðgerðaáætlun um orkuskipti í samgöngum segir, með leyfi forseta:

„Gjaldtaka í samgöngum verði endurskoðuð þannig að hún tryggi ríkissjóði nægar skatttekjur til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi samgöngumannvirkja.“

Þetta virðist sem sagt vera stefna ríkisstjórnarinnar í mörgum málum, hún kemur fram á mörgum sviðum, að þetta verði framkvæmt þannig.

Íbúafjölgun var reifuð hér áðan. Þetta eru 70 þús. íbúar til ársins 2040 sem þarf að koma til og frá stöðum. Ef ekki verður farin leið með þéttingu byggðar og borgarlínu mun tafatími í umferðinni aukast um rúmlega 200%. Það eru 172 þús. bílastæði í Reykjavík í dag. Við munum ekki takast á við þessa auknu umferð öðruvísi en að efla almenningssamgöngur mikið.

Rétt í lokin, (Forseti hringir.) fyrirgefðu, virðulegur forseti, með samning sem hæstv. ráðherra vitnaði í varðandi almenningssamgöngur á höfðuborgarsvæðinu. Ríkið stóð ekki við hann nema í eitt ár. (Forseti hringir.) Strax árið eftir var skorið niður og svo aftur í framhaldi af því.