146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að upplýsa að samkvæmt siðareglum Alþingis hef ég hagsmuna að gæta í málinu. Ég malbika á sumrin að loknum þingstörfum þannig að í öllu sem varðar fjármagn og nýframkvæmdir og slíkt hef ég sannarlega hagsmuna að gæta.

Ef við afgreiðum fyrst fjármögnun nýframkvæmda og viðhald vega þá hefur ráðherra talað um leiðir eins og að setja upp vegtolla og taka gjald af þeim sem keyra um vegina. Ríkisstjórnin talaði um að ekki ætti að leggja á hærri skatta en svo geta menn farið í orðhengilshátt og tekið sérstök gjöld af þeim sem keyra um vegina, sem er í sjálfu sér ígildi skatts. Slíkt ígildi skattheimtu er hins vegar mjög óskilvirkt. Það kostar mikið að vera með fólk og setja upp infrastrúktúr, setja upp innviði, til að innheimta þetta gjald. Spurningin er því hvort önnur leið sé til að innheimta þetta gjald, til að viðhalda vegum og fara í nýframkvæmdir. Já, sú leið er til og það gjald er innheimt, það er bara ekki notað í þessa málaflokka og hefur ekki verið uppfært eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé benti á. En það er til önnur leið og miklu skilvirkari til að ná þessu inn, þ.e. í gegnum veggjöld og alls konar önnur gjöld sem þegar eru tekin, hækka þau ef þarf og láta þau skila sér í nýframkvæmdir og viðhald vega.

Hvernig væri það, hæstv. ráðherra, að láta það skila sér og taka slaginn þar í staðinn fyrir að taka þann slag að kroppa krónurnar af fólki á vegunum í vegtollum, taka þann slag að láta þetta gjald skila sér?