146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hér hafa margir ágætir þingmenn höfuðborgarsvæðisins tjáð sig nákvæmlega um þær útfærslur sem undir liggja. Ég ætla hins vegar að nota mínar tvær ræður í að ræða almennt um borgina og hins vegar bílinn. Það eru nefnilega ástæður fyrir því að hlutir eru eins og þeir eru.

Árið 2008 er fyrsta skipti í sögu mannkynsins sem áætlað er að jafn margir búi í þéttbýli og dreifbýli. Áætlað er að árið 2050 munu 70% allra jarðarbúa búa í þéttbýli og nú þegar búa 64% allra íbúa Íslands á höfuðborgarsvæðinu. Þessi gríðarlegi flutningur úr sveit í þéttbýli á 20. öldinni hefur gert það að borgir hafa þróast með óásættanlegum og ósjálfbærum hætti. Þær hafa byggst upp á forsendum hinnar bandarísku bílaborgar, þ.e. flokkunar og aðgreiningar. Þær hafa verið gisnar með dýrum innviðum og það er erfitt að byggja upp góðar almenningssamgöngur í slíkum borgum. Þetta gengur ekki. Vaxi borgirnar okkar svona áfram verða þær sífellt ósjálfbærari.

Loftslagsmál eru brýnustu verkefni okkar. Við vitum að hlýnun jarðar er að miklu leyti okkar sök. Við þurfum nýjar og vistvænar orkuuppsprettur. Það kemur þó ekki í veg fyrir að við þurfum að breyta og endurskoða lifnaðarhætti okkar. Við þurfum að byggja miklu þéttar. Við þurfum að byggja smærra og við þurfum líka að neyta minna. En borgirnar eru drifkraftur efnahagslegs vaxtar alls staðar í vestrænum ríkjum og þess vegna þurfum við aftur að fara yfir í borgarmódel hinnar evrópsku borgar sem byggir á blandaðri byggð, þéttari landnotkun, þar sem við höfum tækifæri til að efla almenningssamgöngur og möguleika á því að ferðast á vistvænni máta, m.a. gangandi og hjólandi.