146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:39]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir þá góðu umræðu sem hefur skapast um stöðu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ekki veitir af. Reykjavík fór svo sannarlega úr sveit í borg við upphaf 20. aldar og með sanni má segja að við upphaf 21. aldar sé Reykjavík að þróast frá því að vera borg yfir í stórborg. Eins og aðrar stórborgir þarf Reykjavík og stórhöfuðborgarsvæðið að fara að gera metnaðarfullar áætlanir þegar kemur að almenningssamgöngum. Eins og sagan hefur kennt okkur og reynsla annarra ríkja og annarra stórborga þá er einkabíllinn ekki besta lausnin þegar kemur að því, bæði upp á pláss og gæði samgangna, þ.e. að allir ferðist um á bíl. Þess vegna þótti mér áhersla hæstv. samgönguráðherra á breikkun vega hér og þar og þar fram eftir götunum ekki endilega vera sú forgangsröðun sem við þurfum að hafa.

Ég hjó eftir því í máli hæstv. ráðherra að þegar hann ræddi um almenningssamgöngur sagði hann að farþegum hefði einungis fjölgað um 14% að teknu tilliti til fólksfjölgunar, en samkvæmt tölum frá Strætó.bs hefur farþegum í strætó fjölgað um 25% frá 2010–2015. Ég verð því að fá að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvernig hann fái það út að fjölgunin sé einungis 14%. Við sjáum að farþegafjöldinn hefur farið úr 7 milljónum upp í 10 milljónir 2014. Ég verð að höggva aðeins eftir þessu og ég vona að hæstv. ráðherra geti gefið mér svör varðandi það hvernig hann fékk þessi 14% út.