146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:41]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að tæpa á peningum í þessu samhengi, um skattlagningu sem uppruna fjármögnunar samgöngumannvirkja, hugsanlega fjármögnun með gjaldtöku, fjármögnun í samvinnu við einkaaðila og síðan það sem mér finnst líka mjög mikilvægt að velta fyrir sér sem er hvernig við getum notað gjaldtöku til stýringar og þá ekki bara í höfuðborginni heldur víða um land, þannig að við séum komin nær því að vera komin með tæki sem er hægt að beita alls staðar, bæði til fjármögnunar en ekki síst til stýringar á umferð. Við þekkjum að þetta er víða notað erlendis og ég held að það sé skynsamlegt.

Það sem ég vildi leggja til hér eða minnast á er að við þurfum auðvitað að skoða samspil allra þeirra tóla og tækja sem við höfum til umráða. Við eigum að nota þau til þess og beita þeim í þágu þess sem eru greiðari samgöngur, vistvænni samgöngur og ódýrari samgöngur og styðja við markmið í skipulagsmálum og umhverfismálum. Ég held að mjög mikilvægt sé að taka þá umræðu alla með þeim formerkjum. Samgöngur eru að breytast, tæknin er að breytast og það er orðið miklu auðveldara að stýra gjaldtöku niður á ferðir farartækis. Það eru mörg sjónarmið uppi sem væri mjög gaman að velta fyrir sér í því samhengi.