146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að nota seinni ræðutímann til þess að ræða aðeins um einkabílinn. Brennsla jarðefnaeldsneytis er auðvitað okkar stærsta vandamál og nú er mikil áhersla á að bíllinn sé drifinn áfram af vistvænum orkugjöfum og á að leysa allt með því. En málið er ekki svo einfalt þó að það sé skref í rétta átt. Það sem gerir bílinn nefnilega svona einstakan er ekki endilega hvernig hann er knúinn áfram, heldur hreyfanleiki hans. Hann gerir okkur nefnilega kleift að ferðast mjög langar vegalengdir á stuttum tíma og hann er einfaldlega freisting til þess að byggja borgirnar með gisnum og ósjálfbærum hætti. Öll síðasta öld hefur einkennst af aðlögun að þessu fyrirbæri. Með tilkomu hans hurfum við frá hugmyndinni um hina þéttu evrópsku byggð sem byggði á fjölbreyttri landnotkun. Menn bjuggu gjarnan á efri hæðum en unnu á jarðhæðinni og svo voru veitingastaðir og önnur afþreying í seilingarfjarlægð og oft gat maður gengið þangað.

Borgir voru býsna þéttar þrátt að þær væru ekki háar vegna þess að almenningsrýmin tóku mið af manninum sjálfum en ekki fyrirbærinu bíl. En þegar bíll varð almenningseign breyttust áherslurnar mikið. Við fórum að byggja eftir amerísku líkani flokkunar og aðgreiningar. Þar býr fólk gjarnan í úthverfi, vinnur í allt öðru umhverfi og sækir svo afþreyingu í það þriðja, eða miðborgina. Allt er svo tengt saman með sífellt stærri umferðaræðum og gríðarlegum bílastæðum. Útþenslan kallar svo stærri götur og enn fleiri bílastæði. Innviðir verða dýrir og byggðin ósjálfbær.

Við þurfum því að fara að byggja aftur á hinu evrópska líkani blandaðrar og þéttrar byggðar. Þar eru gönguhæfi og almenningssamgöngur algjört lykilatriði. Hver vill ekki frekar eyða peningunum í heilbrigðisþjónustu og menningu en malbik, lagnir eða snjómokstur? Við þurfum því að minnka notkun einkabílsins, en við viðurkennum auðvitað tilvist hans. Gefum þeim sem þurfa og vilja nýta þann kost, en við skulum búa framtíðarkynslóðir okkar undir það að geta valið annan og umhverfisvænni ferðamáta.