146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Mikið hefur verið talað um það hér hvernig við getum dregið úr mengun frá umferð og hafa orkuskipti og almenningssamgöngur verið nefnd í því sambandi. Það er alveg hárrétt, en það má heldur ekki gleyma því að greiðari samgöngur menga minna. Það er auðvitað áhyggjuefni að þrátt fyrir þá miklu peninga sem ríkið hefur sett til styrkingar almenningssamgöngum hér með samningi frá 2012 að við skulum ekki sjá betri árangur af því. Ég minni bara á, ef við horfum á það í samhengi við mislæg gatnamót, að við setjum svipað til höfuðborgarsvæðisins í þessu efni og tilboðið hljóðar upp á sem við höfum nú fengið í mislæg gatnamót við Krýsuvíkurafleggjara.

Maður veltir líka fyrir sér í þessu samhengi ef við lítum aðeins í eigin barm hér í þessum sal hversu margir skyldu hafa komið í strætó í vinnuna í morgun. Ég held að ágætt sé að við hugsum það. Ég veit ekki hvort við hv. þm. Rósa Björg Brynjólfsdóttir verðum samferða í strætó eða með öðrum hætti, en það verður að koma í ljós.

Ég var inntur eftir þeim tölum áðan sem ég hafði um aukninguna. Þetta er samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni og samkvæmt tölum sem eru frá því samningur var gerður 2012 og til og með 2015.

Talað er um hina mörkuðu tekjustofna og hvað eigi að fara í vegaframkvæmdir og að verið sé að skattleggja þetta mikið. FÍB birti tölur um að árlega séu innheimtir 70 milljarðar af umferðinni í formi skatta og gjalda. Í þeim tölum er einnig virðisaukaskattur af kaupum á nýjum bílum, eldsneyti og varahlutum. Þar af leiðandi er upphæðin töluvert hærri en þeir skattar sem innheimtir eru af akstri. Ef horft er á almennt vörugjald af bensíni, olíugjald, kílómetragjald, bifreiðagjald og kolefnisgjald er áætlað að það séu um 33 milljarðar á þessu ári. Það er nokkurn veginn á pari við það sem við setjum í samgöngumál, en við setjum þar rétt um 30 milljarða.

Það er því mjög mikilvægt að við förum hér með réttar upplýsingar þegar við ræðum þetta og gerum okkur grein fyrir forsendum vandans, vegna þess að við nálgumst hann ekki með slagorðayfirlýsingum í þessu samhengi. (Forseti hringir.)

Forsendur gjaldtöku, ef af verður, ef okkur auðnast að fara þá leið og ná einhverju samkomulag um það, byggja auðvitað á því að hagsmunir (Forseti hringir.) þeirra sem fara mjög oft þarna um og þurfa að borga reglulega fyrir það, (Forseti hringir.) fara t.d. til vinnu og skóla, (Forseti hringir.) séu meiri eftir að (Forseti hringir.) framkvæmdirnar hafa náð sér á strik.