146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:11]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að hæstv. ráðherra ferðamála tekur ekki við öfundsverðu búi, enda einkenndi stefnuleysi þennan málaflokk á síðasta kjörtímabili þegar hann var einnig undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.

Það er kominn tími til að fara í alvöruaðgerðir þegar kemur að uppbyggingu á miklum grundvallarþörfum ferðaþjónustunnar. Það er eins og ríkt hafi ákveðin tilvistarkreppa nýfrjálshyggjunnar þar sem engu hefur verið komið í verk, þar sem ekki má taka nein gjöld, þar sem ekki má einu sinni byggja klósett því að markaðurinn á einhvern veginn að sjá um þetta sjálfur. Það gengur greinilega ekki lengur. Við sjáum fram á að náttúran verði fyrir skaða, ímynd landsins verði fyrir skaða. Við sjáum að ágangurinn á ákveðna staði landsins er orðinn það mikill að við þurfum að bregðast við, einfaldlega til þess að vernda náttúruna því að þetta er líka spurning um náttúruvernd. Þegar við tölum um aðgangsstýringu og hugsanlega gjaldtöku þá á gjaldtaka líka við sem tegund náttúruverndar. Það er alþekkt um allan heim að þjóðgarðar taka gjald af ferðamönnum sem fara þar í gegn, einfaldlega til þess að viðhalda þeirri náttúruauðlind sem þjóðgarðar eru.

Ég fagna þessari umræðu, enda er kominn tími til að eitthvað verði gert í þessum málum. Við höfum ekki efni á að missa ferðamannaiðnaðinn úr landi, ekki efni á að Ísland verði ekki lengur hluti af ferðamannastraumi heimsins. Það er því mjög mikilvægt að við tökum þessa umræðu og finnum lausnir. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir grunnuppbyggingu á þessu sviði.