146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:13]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka samferðafólki mínu í þinginu fyrir margítrekaðar óskir um að ég taki þátt í umræðunni í þingsal. Ég var hrærð og þakklát fyrir að það skyldu skapast alveg sérstakar umræður um það í gær að ég skyldi hafa verið fjarverandi við sérstakar umræður í fyrradag. Það er indælt að vita að manns er saknað svo stíft. Ég reyni að vera hér eins oft og lengi og mér er unnt.

En að ferðamálunum, ég þakka fyrir umræðurnar og hæstv. ráðherra fyrir góða innsýn. Sérstaka athygli vekur sú nálgun sem málshefjandi velur. Nálgunin snýst nefnilega um gjaldtöku og skiptingu tekna af ferðamönnum en ekki um uppbyggingu greinarinnar. Vissulega er mikilvægt að dreifa álagi af ferðamönnum víðar um landið en við þurfum að gera svo miklu meira en það. Við þurfum að fara að bera meiri virðingu fyrir þessu fjöreggi sem okkur var falið að gæta. Við getum ekki á sama tíma og við seljum landið sem hreina náttúruparadís stóraukið aðgengi að náttúruperlum án þess að ráðast í nokkrar mótvægisaðgerðir. Það er líka mikilvægt að tryggja fjölbreytt og vel menntað vinnuafl til að halda úti öflugu og góðu þjónustustigi í ferðaþjónustunni. Til að hámarka gæði og tekjur í ferðaþjónustu þarf að móta stefnu til langs tíma sem hæstv. ráðherra hefur talað fyrir. Með því aukum við lífsgæði okkar Íslendinga líka því að ferðaþjónustan er farin að hafa áhrif á ýmsa grunninnviði í landinu.

Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, þarf að forgangsraða framkvæmdum sem ráðast þarf í til að skapa ekki óþarfa þenslu, verðbólgu eða launaskrið. Þá eru ónefnd enn stærri verkefni eins og sú hugmynd að rafvæða bílaleiguflotann með tilheyrandi uppbyggingu á hleðslustöðvum um land allt.