146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Fyrir einhverjum tugum ára tók Alþingi þá ákvörðun að gefa þeim sem kaupa sér gistingu hér á landi afslátt af virðisaukaskatti, þann sama afslátt frá almennu þrepi skattsins og almenningur fær af matvælum, orku og bókum. Þessi ákvörðun var tekin í hagstjórnarskyni eins og allar ákvarðanir um skattastyrki. Ákvörðunin var tekin til að freista þess að fjölga ferðamönnum hér á landi og vera með hagstæðari kjör eða svipuð og þau lönd sem við vildum keppa við um ferðamenn. Þegar ákvörðun var tekin um þetta var ferðaþjónustan ekki stór atvinnugrein og vóg ekki þungt í atvinnusögu þeirra tíma.

Nú mörgum árum síðar er ferðaþjónustan orðin ein stærsta atvinnugrein landsins og aflar góðra gjaldeyristekna. Atvinnugreinin vegur mjög þungt í atvinnu og uppbyggingu um allt land og hefur gríðarleg áhrif á efnahag landsins og veldur álagi á innviði sem verður að mæta. Ríkissjóður verður að leggja út fyrir vegaumbótum, bættri aðstöðu á ferðamannastöðum, til að styrkja heilbrigðiskerfið, sjúkraflutninga og löggæslu. Nú þarf að beita þeim hagstjórnartækjum sem ríkisvaldið hefur tök á til að mæta álaginu sem fjöldi ferðamanna veldur. Þá liggur beinast við að færa virðisaukaskatt af gistingu og þjónustu fyrir ferðamenn í almennt þrep eins og aðrar atvinnugreinar landsins búa við sem veita þjónustu eða selja vöru sem neytt er hér á landi. Sú breyting gæfi 10–15 milljarða kr. í ríkissjóð á ári. Það munar um slíka upphæð við uppbygginguna sem er nauðsynleg svo að þær fjárfestingar sem greinin hefur sjálf stofnað til muni borga sig til framtíðar. En slík breyting yrði ekki gerð á morgun heldur þyrfti langan aðdraganda og kæmi það því í fyrsta lagi til framkvæmda haustið 2018 ef ákvörðunin yrði tekin í dag.