146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:25]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu ráðherra að hún boðaði hér í dag aðgerðir til innheimtu bílastæðagjalda í samræmi við það sem fram kemur í stjórnarsáttmála. Þetta er sannarlega gleðiefni, enda mun það tryggja hinu opinbera tekjur til uppbyggingar á ferðamannastöðum sem ríkið hefur á forsvari sínu. En það er líka ánægjulegt að hæstv. ráðherra hugar að því hvernig sveitarfélögin geti nýtt sér þetta úrræði.

Þetta mun stuðla að því að staðarhaldarar geta betur sinnt náttúruverndarhlutverki sínu og geta líka betur tryggt öryggi ferðamanna. Það er auk þess gleðiefni hversu mikla áherslu ráðherra leggur á að sveitarfélögin fái hlutdeild í þeim ágóða sem leggst til með auknum fjölda ferðamanna. Þetta skiptir öllu máli, enda gríðarlega mikið álag á þeim sveitarfélögum sem bera hitann og þungann af þessum aukna fjölda. Álagið er einmitt sérstaklega mikið í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi.

Að lokum og í ljósi þess að ráðherrann kemur svo skýrt í ræðu sinni að mikilvægi þess að dreifa álaginu af auknum fjölda ferðamanna um landið allt langar mig að enda á annarri spurningu sem lýtur að flugsamgöngum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi skoðað sérstaklega möguleikana á því að gera minni flugvellina í landinu, t.d. Hornafjarðarflugvöll, þannig úr garði að þeir geti sinnt millilandaflugi og þjónað þeim tilgangi að dreifa betur álagi af auknum fjölda ferðamanna. Telur ráðherra að slíkar breytingar á flugvöllunum og úrbætur á aðbúnaði geti verið liður í þessu átaki?