146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:27]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Til að ljúka máli mínu vil ég segja að heilbrigð uppbygging í ferðaþjónustu getur vel orðið hryggjarstykkið í nýrri sókn í dreifbýli. Ég sakna þeirrar áherslu í spurningum málshefjanda en get fullvissað hana um að þingmenn Bjartrar framtíðar munu leggja sitt af mörkum við að móta sýn og stefnu til framtíðar sem eykur gæði ferðaþjónustunnar til lengri tíma.

Ég vil einnig nefna að við gerð stefnumörkunar hvet ég hæstv. ráðherra með tilliti til gjaldtöku og dreifingar til að huga að sjálfbærni í uppbyggingu ferðagreinarinnar sjálfrar, að við drögum úr álagi á samfélagið og okkur sem ríki hvað varðar áhrif á grunninnviði í landinu. Við höfum talað mjög mikið um landsbyggð en hér á höfuðborgarsvæðinu skortir húsnæði sem hefur haft þær afleiðingar á velferðarkerfi okkar og ýmislegt annað að við höfum áhuga á að ferðagreinin sjái um sig sjálf.