146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:32]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessari mikilvægu umræðu. Við höfum öll skoðanir á þessu máli og finnum öll, skynja ég hér, hvað þetta brennur á okkur. Hér erum við auðvitað að taka málið fyrir út frá ákveðnu afmörkuðu sjónarhorni. Það er miklu víðtækara en svo og miklu meiri umræða eftir um þennan málaflokk. Ég tek alveg undir það sem fram hefur komið í ræðum þingmanna.

Ég fagna því að ráðherra talar um að leggja sérstaka áherslu á ferðamálin með því að stofna skrifstofu ferðamála. Það er gott að forgangsraða í þá þágu. Hún talaði líka um samhæfingu og þverfaglega vinnu á milli ráðuneyta. Ég náði því ekki alveg hvort heilbrigðisráðherra kemur líka inn í Stjórnstöð ferðamála, í þá vinnu, sem ég tel mjög mikilvægt því að með auknum straumi ferðamanna hefur álagið á heilbrigðiskerfið aukist til muna.

Ráðherra talar um hækkun á gistináttagjaldi. Þá vil ég velta því upp hvort ekki sé rétt að dreifa því. Er rétt að gistináttagjald renni aðeins til þess svæðis þar sem mest af því kemur inn? Er það ekki tæki til að stýra því út, til að byggja upp um landið? Við verðum að gera það. Það er ekkert annað í boði fyrir okkur ef við ætlum að styrkja landsbyggðirnar og koma þessum atvinnuvegi á þann stað sem við viljum. Ferðaþjónustan er gott tæki og góður stuðningur við grunnatvinnuvegina og vinnur vel með þeim í öllum samfélögum um landið.

Það sem við þurfum núna er skýr og afmörkuð stefna. Við þurfum að finna leiðina. Við erum að tala um ferðamannalandið Ísland en það verður að vera land sem við viljum líka búa í.