146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

um fundarstjórn.

[12:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni hvað þetta varðar. Það er ekki bara vegna þess að málið er stórt og umdeilt og allt það heldur er það tíminn sem framsögumaður hefur. Ég hef enga trú á því, eins mikla áherslu og Sjálfstæðisflokkurinn leggur á þetta mál, að það taki fjórar, fimm mínútur að mæla fyrir því. Síðan verða auðvitað full andsvör, geri ég ráð fyrir, þannig að það er alveg ljóst að tíminn til kl. 13 nægir ekki. Það er ekki góður bragur á því að byrja nokkurt mál, hvort sem það er þetta eða eitthvert annað, að þurfa að slíta það í sundur í miðjum andsvörum eða jafnvel í miðri ræðu þingmannsins. Ég vona að málinu verði frestað þangað til að velferðarnefnd hefur lokið fundi kl. 14 og þá getum við hafið þessa umræðu af fullum þunga eins og Sjálfstæðismenn vilja svo mikið leggja áherslu á.