146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

jafnréttisákvæði í frumvarpi um dómstóla.

[14:02]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Í 1. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla og í nefnd um hæfni dómaraefna var hæstv. dómsmálaráðherra spurður af hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni hvort ekki væri ástæða til að setja sérstök ákvæði um skipun dómara sem feli í sér, auk almennra hæfnisskilyrða, að sérstaklega skuli horft til sjónarmiða um jafnrétti kynjanna. Hæstv. dómsmálaráðherra svaraði í andsvörum við hv. þingmann, með leyfi forseta:

„Ég er ekki talsmaður þess að menn bindi það í lög að velja eigi einstakling eftir kyni fremur en hæfni.“

Það eru mér mikil vonbrigði að allsherjar- og menntamálanefnd kjósi að gera hæstv. dómsmálaráðherra það kleift að taka ekki mið af þessum mikilvægu sjónarmiðum í mikilvægum málaflokki.