146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

jafnréttisákvæði í frumvarpi um dómstóla.

[14:06]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek innilega undir vonbrigði þau sem þingmenn og nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd lýsa hér með afgreiðslu máls úr nefndinni þar sem tekið var út ákvæði um að kynjasjónarmið væru höfð að leiðarljósi varðandi nýtt millidómstig. Þessi vonbrigði ríma líka við vonbrigði sem komu fram í umræðum þegar dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp sitt um nýtt millidómstig, Landsrétt. Þetta kom fram í svörum ráðherra þegar rætt var um valnefnd og skipun dómara í nýtt dómstig en hún sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég tel ekki til velfarnaðar fallið almennt að hugsa skipun í jafn mikilvæg embætti og dómarastörf eru með þeim hætti sem fyrirspyrjandi er að kalla eftir“ — og átti þá við hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson — „… að litið sé sérstaklega til kynjasjónarmiða.“

Þetta eru gríðarleg vonbrigði þegar við höfum loks tækifæri (Forseti hringir.) til þess að byrja frá grunni við stofnun á nýju dómstigi en ekki að snúa til baka þróun sem hefur átt sér stað (Forseti hringir.) hér um áratuga ef ekki hundrað ára skeið. Hér höfum við tækifæri til þess að líta af alvöru til kynjasjónarmiða.