146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

jafnréttisákvæði í frumvarpi um dómstóla.

[14:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. „Skal ráðherra sérstaklega hafa í huga jafnréttislög.“ Þetta þykir mér sakleysisleg setning í lögum, sérstaklega þegar við erum að skipa 15 dómara í nýtt dómstig sem munu sitja þar næstu áratugi. „Skal ráðherra sérstaklega hafa í huga jafnréttislög“ á að standa í lagatexta en ekki í nefndaráliti vegna þess að ég hef ekki nógu mikla trú, ég hef ekki oftrú á lögskýringargildi nefndarálita.

„Skal ráðherra sérstaklega hafa í huga jafnréttislög“ er ítrekun á því að jafnréttislög nái yfir þetta, ítrekun sem er nauðsynleg, m.a. í ljósi þess að Hæstiréttur þarf að fá stafað ofan í sig að fylgja jafnréttislögum þó að þau gildi augljóslega um hann og vegna þess að nú situr í boði Sjálfstæðisflokksins ráðherra dómsmála sem telur ekki til velfarnaðar að líta sérstaklega til kynjasjónarmiða. „Skal ráðherra sérstaklega hafa í huga jafnréttislög“ (Forseti hringir.) er sjálfsögð setning sem við ættum ekki að þurfa að hafa í lögum en þurfum að setja þangað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)