146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

jafnréttisákvæði í frumvarpi um dómstóla.

[14:17]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki lengja þessa umræðu um fundarstjórn forseta mikið þar sem hún er farin að snúast um allt annað. Ég vil þó árétta að ráðherranum ber, og hún hefur sagt það, að fara eftir lögum um jafnan rétt kvenna og karla. Ég er eiginlega sammála hv. þm. Smára McCarthy að það væri mjög skemmtilegt ef dómarar Landsréttar væru eingöngu konur og það gæti vel gerst í nánustu framtíð, sérstaklega miðað við stöðu kvenna í lagadeildinni. Við sjáum að konur eru helmingur dómara í héraðsdómi núna og þróunin verður betri, hún mun verða betri og ráðherra mun horfa til jafnréttislaga við val á dómurum eins og henni ber skylda til.