146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:51]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nenni nú ekki að elta ólar við eistnatalningar framsögumanns hér. Það er gott að hv. þingmaður Teitur Björn Einarsson skuli vera svona áfram um forvarnir og fræðslu. Ég sá það reyndar ekki í afgreiðslu fjárlaga í desember að hann eða aðrir flutningsmenn legðu sérstaka fjármuni í þennan málaflokk eða að flokkur hv. þingmanns hefði sérstaklega verið í því. En hv. þingmaður og flutningsmaður dregur í efa orsakaskýringarnar að þetta muni auka aðgengi og menn muni greina á um það. Gott og vel. Mig langar að vitna í greinargerðina með frumvarpinu sjálfu, með leyfi forseta:

„Í b-lið 30. gr. er lagt til að lýðheilsusjóði verði gert að leggja sérstaka áherslu á forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna næstu tvö ár eftir samþykkt frumvarpsins. Er það til þess að bregðast við þeim tímabundnu breytingum sem kunna að verða á áfengisneyslu eftir að smásala á áfengi verður gefin frjáls.“

Hvaða tímabundnu breytingar eru þetta sem flutningsmenn telja að verði á áfengisneyslu verði frumvarpið samþykkt? (Forseti hringir.) Og hvaða töfratími er þessi tvö ár? (Forseti hringir.) Hvað gerist að þeim tveimur árum liðnum? Á hvaða rannsóknum er það byggt (Forseti hringir.) að allt breytist eftir tvö ár?