146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:56]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er sannarlega sorgleg málefnaþurrð hjá þingmönnum ríkisstjórnarflokksins Sjálfstæðisflokksins að flytja enn og aftur frumvarp um aukið aðgengi að áfengi. Það er sannarlega sorgleg málefnaþurrð hjá hv. þm. Teiti Birni Einarssyni að draga í efa mörg hundruð rannsóknir um aðgengi að áfengi, m.a. á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar, sem ber nánast allar að sama brunni, að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu.

Í ræðu sinni áðan sagði hv. þingmaður orðrétt, með leyfi forseta, að auglýsingar áfengis yrðu „færðar í skynsamlegra og nútímalegra horf“.

Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann um yfirlýsingu Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum sem birtist þann 3. febrúar sl. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið er því ákall um afturför í lýðheilsumálum, aðför að sjálfsögðum réttindum barna og ungmenna til að vera laus við áfengisáróður og gengur í öllum meginatriðum gegn öllum markmiðum (Forseti hringir.) í forvarnastarfi og í berhögg við opinbera lýðheilsustefnu sem almenn sátt hefur verið um.“

Hvað finnst hv. þingmanni um þessa yfirlýsingu?